Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er búið að vera svo mikið að gera, svo gaman í þessum sal í kvöld að ég gat ekki brugðið mér frá til að horfa á fréttir Stöðvar 2 en þar var í viðtali hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir. Hún var spurð út í þennan orðróm um að gera eigi breytingar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr. Það er eiginlega ekki hægt að kalla þetta meira en orðróm vegna þess að við höfum ekki fengið að vita hvað í þessu felst þó að stjórnarliðar, sérstaklega þingmenn og ráðherrar úr liði Vinstri grænna, hafi haldið því fram að einhverjar breytingar verði gerðar til að bæta frumvarpið. En hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var frekar afdráttarlaus í þessu viðtali við Stöð 2 hér í dag. Hún sagði að meiri hlutinn hefði ekki ákveðið að gera neinar breytingar þó að það kynni vel að vera, en slíkar breytingar yrðu fyrst og fremst til að skýra frumvarpið. Hún segir, með leyfi forseta:

„Það er alveg ljóst að sumir hafa misskilið ákveðin ákvæði, þannig að það kann að vera að við þurfum að skýra það frekar, hvort sem er með hreinum breytingartillögum eða frekari umfjöllun í nefndaráliti, sem eru auðvitað lögskýringargögn. Hér er ekki verið að brjóta mannréttindi á fólki, hér er einfaldlega verið að auka skilvirkni og ná betur utan um þennan mjög svo mikilvæga málaflokk.“

Það er auðvitað hægt að taka nokkrar ræður í að fjalla efnislega um það sem fram kemur í þessu stutta viðtali en þar sem hrópar náttúrlega mest á okkur er að formaður nefndarinnar, konan sem leiðir þessa skútu á milli 2. og 3. umr., segir að það sé ekki von á neinu nema kannski einhverjum smotterísorðalagsbreytingum og ekkert endilega alvörubreytingartillögum heldur bara einhverjum stuttum texta til að fólk sé ekki alltaf að misskilja málið svona mikið. Þá vitum við kannski betur hvað við erum að tala um. Þá erum við bara að tala um að málið eins og það liggur fyrir í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans er það sem meiri hlutinn ætlar að keyra í gegn. Efnislega er þetta það sem meiri hlutinn stendur á bak við.

Það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir segir í þessu viðtali við Stöð 2, um að ekki sé verið að brjóta mannréttindi á fólki, er bara ekki rétt. Hún hefði kannski fastara land undir fótum til að halda þessu fram ef hún hefði ekki lagst gegn því að fá álit Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands á því hvort þetta frumvarp stæðist mannréttindaskuldbindingar. En það vildi meiri hlutinn ekki vegna þess að hann vill frekar geta, án þess að hafa nokkuð fyrir sér, haldið því fram að ekki sé verið að brjóta mannréttindi á fólki þegar hið gagnstæða er raunin. Eða hvað köllum við það t.d. þegar börn eiga að líða fyrir athafnir foreldra sinna þegar kemur að afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd? Athafnir eða athafnaleysi foreldris barns á að ráða því hver niðurstaða í umsókn barnsins verður. Barn hefur sem sagt ekki sjálfstæða hagsmuni gagnvart íslenska ríkinu, hefur ekki sjálfstæðan rétt að mati frumvarpshöfunda og meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Þetta þykir mér stappa ansi nærri því að brjóta mannréttindi þótt Bryndísi Haraldsdóttur þyki það ekki.

Mér þætti ekki úr vegi að við fengjum hæstv. mennta- og barnamálaráðherra til að mæta til okkar eins og um var beðið fyrir nokkru síðan til að segja sínar skoðanir á þessu. Finnst barnamálaráðherra í lagi að staða barna á flótta sé gerð verri með þeim breytingum sem hér eru lagðar til? Maðurinn sem allt síðasta kjörtímabil endurmarkaði sig sem barnamálaráðherra og lagði mikla áherslu á þá ímynd sína, það er í hans nafni sem þessar breytingar eru lagðar fram. Jóhann Friðrik Friðriksson, og nú man ég ekki hver hinn fulltrúi Framsóknar er í allsherjar- og menntamálanefnd — þetta eru fulltrúar barnamálaráðherrans sem styðja framgang þessa máls, alveg eins og ráðherrann sjálfur. Þá mætti hann mæta hingað og segja af hverju.