Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er hér í óðaönn að rekja vitleysuna í greinargerð með frumvarpinu sem segir að breytingar varðandi þjónustusviptingu í kjölfar lokasynjunar á stjórnsýslustigi séu í samræmi við löggjöf og framkvæmd á Norðurlöndunum. Í þessari æsispennandi umfjöllun minni, sem hefur þurft að spanna nokkrar ræður þar sem ræðutími er orðinn svo gríðarlega stuttur í þessum hluta þingmeðferðarinnar, er ég komin að því þar sem ég er að fara yfir þjónustuna og fyrirkomulagið á henni í Danmörku. Ég er komin að besta hlutanum í þeirri umfjöllun sem varðar áhrif synjunar umsóknar um alþjóðlega vernd, kaflinn sem öll hafa beðið eftir, með leyfi forseta:

Synjun um alþjóðlega vernd í Danmörku fylgir jafnan að tiltekinn er ákveðinn frestur sem umsækjandanum er veittur til að yfirgefa landið. Þegar um er að ræða endanlegan úrskurð Flygtningenævnet — sem er sú stofnun sem tekur við kærum vegna úrskurða útlendingastofnunarinnar og lýkur málum — fylgir honum jafnan að tiltekið er hvenær viðkomandi skuli vera farin frá Danmörku. Getur það verið þegar í stað, eftir sjö daga eða eftir 30 daga. Sérstök stofnun, Hjemrejsestyrelsen, annast brottflutning umsækjenda sem var synjað um alþjóðlega vernd og einnig annarra erlendra borgara sem hefur verið gert að fara frá Danmörku. Þegar endanleg synjun um alþjóðlega vernd liggur fyrir er viðkomandi einstaklingi skylt að fara frá Danmörku. Þeim sem í hlut á er boðið samtal við starfslið Hjemrejsestyrelsen um brottflutninginn þar sem leitað er eftir samvinnu um brottförina og gerð grein fyrir afleiðingum þess ef því er hafnað. Dvöl einstaklings sem synjað var um alþjóðlega vernd í Danmörku telst ólögleg eftir að komið er fram yfir frestinn sem veittur var þegar úrskurðurinn féll. Fólk í þessari stöðu er alla jafna flutt í sérstök búsetuúrræði fyrir þá sem bíða brottflutnings. Tvö búsetuúrræði fyrir útlendinga, sem gert hefur verið að yfirgefa Danmörku, eru í landinu og eru þau starfrækt af fangelsismálastofnun Danmerkur, Kriminalforsorgen. Þarna er rafræn aðgangsstýring og myndavélavöktun og vakt allan sólarhringinn. Íbúarnir fara þó frjálsir ferða sinna, þ.e. geta komið og farið að vild að degi til, en þeim er skylt að búa í þessum búðum og þar verða þeir að eyða nóttinni. Fjölskyldufólk er ekki vistað í þeim búðum sem fangelsismálastofnun Danmerkur rekur heldur í Center Avnstrup sem Rauði kross Danmerkur starfrækir. Þar er ekki aðgangsstýring og í Avnstrup er heilsugæsla, vöggustofa og leikskóli, barnaskóli og aðstaða fyrir fullorðinsfræðslu.

Ég ítreka að hér erum við að tala um fólk sem fengið hefur endanlega synjun og dönsk stjórnvöld álíta í ólöglegri dvöl. Ég held áfram:

Þrjár máltíðir eru í boði á dag fyrir fólk sem bíður brottfarar í brottfararbúðum og er það matstofufyrirkomulag. Í Avnstrup mun þó vera eitthvað um að fólk hafi aðstöðu til að útbúa eigin mat. Heimilt er að leggja tilkynningarskyldu á einstaklinga í brottflutningsbúðum þannig að þeim beri að gera grein fyrir ferðum sínum. Þetta á einkum við um þá sem vísað var brott með dómi eða eru umbornir í Danmörku. Þarna er verið að ræða um þá einstaklinga sem ekki er hægt að flytja úr landi og væntanlega þá sem dönsk stjórnvöld hafa fallist á að geti ekki farið til síns heima. Þó að þeim sé ekki veitt varanleg lausn í Danmörku þá fá þau þessa lágmarksþjónustu þarna í þessum búðum.

Heimilt er að svipta þá einstaklinga sem ekki eru samvinnufúsir um brottför sína frá Danmörku fjárstuðningi og getur þetta einnig átt við um þá einstaklinga sem ekki fengu alþjóðlega vernd í Danmörku. — Punktur.

Ég bendi á að heimilt er að taka af þeim vasapening en það er ekki heimilt að taka af þeim heilbrigðisþjónustu, það er ekki heimilt að taka af þeim húsaskjól og það er ekki heimilt að taka af þeim mat. Þannig er þetta í Danmörku. Það sem lagt er til í frumvarpinu hér er ekki í samræmi við framkvæmd eða löggjöf í Danmörku sem þó er talið það ríki Norðurlandanna sem hefur gengið hvað harðast fram gegn fólki á flótta og er með, hvað á ég að segja, hörðustu stefnuna gagnvart þeim.

Í næstu ræðu minni mun ég víkja að öðrum Norðurlöndum og sjá hvort það sé verið að horfa til þeirra með þessari frábæru tillögu í frumvarpinu. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.