Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:30]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var hér áðan að tala um 7. gr. frumvarpsins og var að velta því fyrir mér hvers vegna það væri verið að setja inn þessi sérlög, eða þessa sérreglu, innan annars lagabálks sem varðar stjórnvöld og stjórnsýslulög, sem er nú þegar til staðar í stjórnsýslulögum. Það er einhver kafli í bók Páls Hreinssonar, og líka almenn regla innan stjórnsýsluréttar, sem heitir Skyldubundið mat stjórnvalda. Það þýðir, forseti, að ferill stjórnsýslumáls á að stuðla að því að niðurstaða máls verði rétt. Rétt niðurstaða máls fæst líklegast ef öll málsatvik liggja fyrir, allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir og réttum lagareglum er beitt á réttan hátt. Ferill stjórnsýslumáls, hvernig rétt niðurstaða fæst í stjórnsýslumáli, liggur skýrt fyrir og þetta eru bara skyldur stjórnvalda þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir. Það á m.a. við um Útlendingastofnun sem mun þurfa að lúta þeim lögum sem hér um ræðir. Þetta er bara mjög skýrt. Frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, um breytingu á útlendingalögum, er einfaldlega ekki í samræmi við þetta.

Forseti. Samkvæmt meginreglunni um skyldubundið mat ber stjórnvaldi að meta það með einstaklingsbundnum hætti þegar lög gera ráð fyrir slíku. Þetta gæti til að mynda átt við það að taka umsókn til efnismeðferðar og í þessu frumvarpi — ég man ekki hvaða grein þetta er, mig minnir að það sé 8. gr. — er gert ráð fyrir að þegar að því kemur að um endurtekna umsókn er að ræða þá megi Útlendingastofnun neita að taka málið til efnislegrar meðferðar. Það er bara einfaldlega ekki í samræmi við meginregluna um skyldubundið mat stjórnvalda. Þegar löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum matskenndar heimildir til að tekin sé ákvörðun sem best hentar í hverju máli með tilliti til aðstæðna er stjórnvöldum almennt óheimilt að afnema matið með því að setja fastmótaða reglu sem tekur til allra atvika.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er ekki í samræmi við þessar almennu reglur stjórnsýsluréttar sem ná utan um starfsemi stjórnvalda og þar af leiðandi Útlendingastofnunar sem mun þurfa að lúta þessum lögum. Þegar lög eru sett sem stjórnvöld beita og líta til, við ákvörðun úrlausnar sinna mála, þá ber auðvitað líka að líta til þess hvort þau séu samræmanleg öðrum almennum lögum, ekki bara stjórnarskránni sem ég hef komið margoft inn á hér. Ég ætla ekki að fara út í „lex superior, lex posterior“ og allt það hér og nú. Mér finnst bara rosalega skýrt og mér finnst rosalega augljóst að löggjafinn, eða í þessu tilfelli dómsmálaráðuneytið, sé ekki búinn að hugsa það nógu langt og ekki búinn að hugsa út í það hvort þessi lög sem hér hafa verið lögð fram samræmist öðrum lagabálkum. Gildissvið reglunnar um skyldubundið mat á við þegar löggjafinn hefur ætlast til að ávallt fari fram einstaklingsbundið mat og hafi ætlunin verið að fá stjórnvöldum matskenndar lagaheimildir til að taka ákvörðun sem á best við í hverju máli fyrir sig þá á reglan við. Þessi meginregla gildir ekki bara um stjórnvaldsákvarðanir heldur líka allar ákvarðanir þar sem markmiðið er að stjórnvald taki ákvörðun sem best hentar hverju sinni.

Mér finnst eins og í gömlu glósunum mínum úr stjórnsýslurétti sé talað um nákvæmlega þetta mál og þar sé bara listað upp allt sem þessi lög, útlendingalög, fara í bága við og samræmast ekki. Mér þykir það bara rosalega leiðinlegt að vera að lesa upp glósur sem ég skrifaði á öðru ári í háskóla og rifja þær upp hér fyrir löggjafann, fyrir Alþingi, fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneyti hans, og benda á að þetta samræmist engan veginn meginreglum um skyldubundið mat stjórnvalda.

Mig langar bara að vita, virðulegi forseti: Var eitthvað talað um þessa meginreglu við gerð þessa frumvarps í einhver af þessum fimm skiptum sem það hefur verið lagt fram? Mér sýnist ekki. Mér sýnist eins og þetta hafi verið samið í einhverjum flýti án samráðs. Ég sé að tíminn er á þrotum, virðulegi forseti. Ég klára þetta í næstu ræðu minni.