Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef í síðustu ræðum verið að fjalla svolítið um 4. gr. frumvarpsins og áhrif hennar á stjórnarskrárbundin réttindi fólks á flótta, er snýr að rétti til friðhelgi einkalífs. Ég hef verið að fara yfir umsögn Rauða krossins í þessu samhengi og þær takmarkanir sem hægt er að setja á friðhelgi einkalífsins samkvæmt stjórnarskránni og samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Ég vil halda áfram þar sem frá var horfið í umsögn Rauða krossins vegna þess að þau eru með mjög góða útlistun á því nákvæmlega hvernig þetta ákvæði samrýmist ekki þessum skuldbindingum. Ég hef verið að fara yfir þessi skilyrði, um að til þess að takmarka friðhelgi einkalífs fólks — það sem þetta ákvæði gerir er að veita lögreglu heimild til að afla heilbrigðisvottorða um umsækjendur um alþjóðlega vernd án samþykkis þeirra og án dómsúrskurðar. Það er sem sagt verið að setja inn lagaheimild til þess. Eins og ég hef komið inn á er ekki nóg að setja bara lagaheimild heldur þarf þessi lagaheimild að vera sett með tiltekið lögmætt markmið í huga og sett vegna lögmæts markmiðs. Og svo þarf það að vera nauðsynlegt í lýðræðislegu samfélagi til að ná markmiði sínu, þ.e. þessi meðalhófsregla. Eins og kemur fram í umsögn Rauða krossins, á bls. 6, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði sem mæla fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem gagna er varða andlegt og líkamlegt heilbrigði, án samþykkis viðkomandi þurfa því að uppfylla framangreind skilyrði svo unnt sé að takmarka rétt manna sem tryggður er með 8. gr. mannréttindasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þær undantekningar sem koma fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans eru skýrt afmarkaðar og ber að túlka þröngt með hliðsjón af almennri lögskýringarreglu stjórnskipunarréttar enda er þar kveðið á um takmarkanir á grundvallarmannréttindum sem borgurum eru tryggð.“

Áfram segir:

„Þegar greinargerð við frumvarpið er skoðuð telur Rauði krossinn ljóst að markmiðið með því að veita lögreglu heimild til að afla heilbrigðisvottorða um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings án samþykkis hans fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu telja lögmæt og talin voru upp hér að framan. Markmiðið virðist vera að unnt sé að vísa einstaklingum úr landi á sem skilvirkastan hátt eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar eða úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir. Fær Rauði krossinn ekki séð að það markmið eitt og sér geti talist lögmætt enda ekki nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá telur Rauði krossinn þær aðstæður sem upp komu á meðan heimsfaraldurinn geisaði ekki geta réttlætt heimild lögreglu til að afla hvers kyns upplýsinga um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings til þess eins að geta flutt hann úr landi.“

Og þetta er einmitt mikilvægi punkturinn, virðulegi forseti. Það sem ég kom inn á áðan, í fyrri ræðu minni, er það að almennt séð er frekar auðvelt fyrir stjórnvöld að réttlæta takmörkun á mannréttindum með tilvísan í þessi lögmætu markmið vegna þess að þau eru þetta ítarleg, þau eru það sem ég var að telja upp: nauðsynleg vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þetta dugar oftast til til að standast þetta próf. Eins og Rauði krossinn bendir réttilega á þá stenst þetta ákvæði frumvarpsins ekki einu sinni þetta próf sem flest prófmálin fyrir Mannréttindadómstólnum þó standast. Það er venjulega á næsta prófi sem ríkin falla. Það er alltaf ákveðið viðvörunarmerki, virðulegi forseti, þegar við förum í gegnum þetta þriggja þrepa próf, þegar kemur að skerðingum á mannréttindum fólks, og skerðingin fellur á fyrsta eða öðru prófinu, þ.e. að það vanti bara yfir höfuð lagaheimild eða þá að lagaheimildin sé ekki sett í lögmætum tilgangi. Venjulega er frekar auðvelt að ná nákvæmlega þeim markmiðum. Það er því vissulega mikið áhyggjuefni að þetta ákvæði nái ekki einu sinni öðru þrepi í þessu mikilvæga prófi. En við eigum alveg eftir að fara yfir þriðja þrepið og því óska ég eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.