131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:48]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason gat lítillega í máli sínu breytingartillögu sem hann flytur ásamt tveimur öðrum þingmönnum. Hann vakti sérstaklega athygli á 3. lið tillögunnar þar sem fjallað er um að ekki megi færa kostnað í einu kerfi yfir á kostnað í öðru. Þetta er út af fyrir sig góðra gjalda verð hugmyndafræði, en hún stangast alveg á við þær kröfur sem hv. þingmaður hefur komið fram með um að í uppbyggingu GSM-símakerfisins eigum við t.d. að færa á milli svæða og milli rekstraraðila hjá fjarskiptafyrirtækjunum. En þegar uppbygging GSM-símakerfisins hófst, og til þess að hægt væri að byggja upp þau upp, þá þurftum við að sjálfsögðu að nýta afkomu úr öðrum greinum fjarskiptarekstrarins — og höfum þá að sjálfsögðu þurft að gera það sem hv. þingmaður talar nú um og flytur breytingartillögu um að megi alls ekki gera. Ég vildi því vekja athygli á að þarna er meinleg þversögn í málflutningnum.