135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:51]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Varðandi afmarkaða hópinn þá er ljóst að elli- og örorkulífeyrisþegar og börn eru náttúrlega ekki allt samfélagið og það eru til hópar í þjóðfélaginu, námsmenn, lágtekjufólk og ýmsir hópar, sem ekki falla undir þessar skilgreiningar. Til dæmis eru lægstu laun í landinu jafnvel lægri en lægstu bætur sem fólk fær, þannig að það finnast örugglega hópar sem eiga erfitt með að borga mjög háan tannlækningakostnað sem til fellur.

Hugrenningar mínar um auglýsingar. Meginmarkmið auglýsinga er að upplýsa, veita upplýsingar um hvaða vara er til og hvar. Auðvitað fara auglýsingar líka út í það að hvetja fólk til að kaupa ákveðna vöru og þær fara jafnvel yfir í heilaþvott en hinn upplýsti neytandi nú til dags getur mjög vel greint á milli hvað er heilaþvottur og hvað ekki. Auglýsingar geta sannarlega farið út í öfgar og þá kaupir neytandinn bara það sem er minna auglýst. Það er þannig.

Ég held að ég hafi svarað spurningunum. Auglýsingar eru mjög nauðsynlegur þáttur í samkeppni. Við byggjum t.d. á samkeppni í lyfjum og það er líka verið að stuðla að samkeppni á milli tannlækna. Þeir eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem eiga að keppa sín á milli eins og aðrir sérfræðingar.