136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Niðurskurðarhnífur ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur harkalega niður á málasviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Framkvæmdir til samgöngumála eru skornar niður um hálfan sjötta milljarð kr. Það mun enn magna erfiðleikana í íslensku atvinnulífi, dýpka kreppuna og auka atvinnuleysi í landinu. Framlög til samgöngubóta, almenningssamgangna og aukins umferðaröryggis, eru meðal arðbærustu verkefna sem unnt er að ráðast í, verkefni sem eru mannaflsfrek og skila samfélagslegum ávinningi til frambúðar. Framlög til Fjarskiptasjóðs eru skorin út að fullu en markviss uppbygging fjarskiptanetsins getur verið lykillinn að margvíslegri atvinnuuppbyggingu, m.a. með fjarvinnslu, fjarnámi o.s.frv. vítt og breitt um landið. Sveitarfélaganna bíður mikill tekjusamdráttur og útgjaldaaukning vegna efnahags- og atvinnuárferðisins án þess að þeim sé bætt það með viðunandi hætti. Þetta eru nöturlegar staðreyndir, herra forseti.