138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um skattahugmyndir ríkisstjórnarinnar. Mikið óðagot, samráðsleysi og aukið flækjustig einkenna þessa skatta. Þetta var sett á með óskaplegum hraða og eflaust er fullt af villum í þessu. Flækjustig er mikið, auðlindaskattarnir einir saman þýða a.m.k. 1 milljón færslna og allar mismunandi sem þarf að hafa eftirlit með, pínulitlar. Hér er auk þess ráðist á atvinnu, bæði með tryggingagjaldi og sköttum á áhættufé, þannig að það er eins og ríkisstjórninni sé illa við að atvinna myndist í landinu. Hún stuðlar í rauninni að því að atvinnuleysi verði sem mest þó að ég haldi að það sé örugglega ekki ásetningurinn. Ríkissjóður þarf engu að síður að hafa tekjur. Þó að hann hafi hafnað þeirri ágætu leið sjálfstæðismanna að skattleggja séreignarsparnaðinn verðum við að hafa tekjur einhvers staðar en vegna þess hve þetta er illa unnið sit ég hjá við þessa atkvæðagreiðslu.