138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé á ferðinni mikill misskilningur hjá þingmönnum Hreyfingarinnar. Þeir leggja til að fjármunir verði veittir til uppbyggingar ferðaþjónustu en leggjast gegn því að veittur sé styrkur til félags áhugamanna um jólasveina í Dimmuborgum í Mývatnssveit. Við gætum þess vegna ímyndað okkur að það verkefni héti áhugamannafélag um uppbyggingu ferðaþjónustu að vetri til. Þetta snýst einfaldlega um að efla ferðamennsku og um það snúast þessi verkefni víðs vegar um landið.

Þá vil ég (Gripið fram í.) segja það hér vegna þess að ég missti af atkvæðagreiðslunni áðan um refa- og minkaveiði að það að leggja til að sá liður verði skorinn niður er fullkomið ábyrgðarleysi. Ég segi því nei (Gripið fram í.) við tillögum Hreyfingarinnar.