139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri sem ég fæ til að ljúka ræðu minni með því formlega standi að þær verði þá tvær.

Ég var þar kominn áðan að ég hafði rakið spurningar um gang máls og form þess. Einhver svör hef ég fengið og get ekki gagnrýnt menn fyrir að svara því sem þeir vita ekki því að, eins og ég sagði í upphafi, betra hefði verið að hæstv. innanríkisráðherra hefði verið staddur hér. En svo er ekki og við það verður að búa.

Ég ætlaði að ljúka þessu spjalli með því að telja upp þá efnisþætti málsins sem mér þykja óljósir. Ég ítreka að á þessu stigi eru þeir ekki svo óljósir að þeir komi í veg fyrir að hægt sé að styðja málið. Þeir eru samt óljósir og ég tel að ráðherra hefði átt að gera grein fyrir þeim. Ég held að sumir þeirra hefðu skýrst ef þeir hefðu farið í gegnum þá síu sem stjórnarfrumvörpum er gert að fara í gegnum og ég tel líka, forseti, þótt um mína ágætu samstarfsmenn í allsherjarnefnd sé að ræða, að allsherjarnefndarmenn hefðu átt að skoða suma af þessum þáttum áður en þeir guldu jákvæði sitt við því að flytja málið.

Í fyrsta lagi er það kannski það að engar upplýsingar liggja fyrir frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eða öðrum um hver kostnaður nemenda verði við þessa breytingu. Það er eðlilegt að spyrja: Hver er staða nemenda fyrir breytingu og eftir? Svo geta menn teygt það og togað að það væru engir nemar ef engin breyting væri, en það er eðlilegt þegar litið er á málið eins og við eigum að gera við 1. umr. og síðari umræður að vita það: Hvað græða nemendur og hverju tapa þeir? Hvernig er staðan hjá nemanda sem fór í gegnum Lögregluskólann síðast og fékk laun og hvernig er hún hjá þeim sem tekur námslánin? Um þetta er ekkert í greinargerðinni og ekki í þeim gögnum sem hægt er að finna um málið án þess að hafa setið í allsherjarnefnd á sínum tíma.

Í öðru lagi, af því að Arnar Guðmundsson og höfundar greinargerðarinnar tala um hagræði, hlýtur maður að spyrja eins og hv. síðasti ræðumaður: Hver er sparnaður ríkisins? Um hvað hagnast ríkið á þessari breytingu? Hvert hagræði er það sem ríkissjóður hefur af breytingunni? Þumalputtareglan um námslán er sú að helmingur þeirra sé í raun og veru styrkur. Það er örugglega minna hér því að námslán vegna stutts náms eru alla jafna borguð fyrr upp og betur en vegna langs láns en um þetta eru engar vísbendingar aðrar en þær sem menn geta sagt sér sem hafa einhverja reynslu af námslánaumræðunni. Um sparnaðinn lögreglumegin vitum við ekkert, það kemur ekki fram en það er alveg ljóst að sá sparnaður sem af þessu hlýst lögreglumegin kemur út sem kostnaður lánasjóðsmegin. Um þetta þurfum við að fá meira að vita.

Svo er auðvitað spurning um tekjureglur lánasjóðsins. Námslánin fyrir einstakling eru 120 þús. kr. á mánuði en til frádráttar þegar maður fær námslán eru dregnar tekjur hans frá fyrra ári og þær tekjur hafa líka ákveðna formúlu. Mig minnir að 35% af því sem er umfram 750 þús. kr. dragist frá og um það eru heldur engar upplýsingar hér. Hvernig á lögregluneminn í raun og veru að fara í þriðja hluta námsins eftir að hann hefur verið launaður í öðrum hluta námsins? Þetta kemur ekki fram, hvorki frá hv. flutningsmönnum né frá ráðherranum sem hvatti til flutnings frumvarpsins.

Í fjórða lagi þarf að svara því, helst hér og nú, hvernig er með stöðu þessara nema. Samkvæmt reglugerðum um Lögregluskólann er hægt að gera nemana þar að hluta af lögregluliðinu. Það er hægt að kalla nemendur út þegar mikið er um að vera í samfélaginu, við stórviðburði eða trumbuslátt eins og hér fer fram, og þeir eru þar með orðnir hluti af lögregluliðinu. Það er sérstök grein í reglugerðinni sem gerir grein fyrir því hvenær þeir geta svarið eið sem lögreglumenn, og maður spyr: Er það svo að hluti af lögregluliðinu getur verið á námslánum? Er það þannig að eiðsvarnir lögreglumenn sem standa í stórræðum, t.d. úti á Austurvelli eða hvar sem er, launi sjálfa sig með því að hafa tekið lán hjá lánasjóðnum? Engin grein er gerð fyrir þessu.

Í fimmta lagi: Hvað með framhaldsnám lögreglumanna? Er það hér með búið á launum eða eru námslán borguð í því? Hvernig á að skipuleggja það nám? Hversu langt er það? Engin grein er gerð er fyrir því, ekkert fær maður að vita um þá stöðu. (Forseti hringir.) Við þessu vil ég gjarnan fá svör ef þau liggja einhvern veginn fyrir. Engin svör með formlegum hætti ef ekki gefst annað. (Forseti hringir.) Nefndin þarf svo að fara yfir málið og ég segi eins og ég sagði áðan að ég ætla ekki að taka afstöðu til þess fyrr en í þeirri vinnu. Ég legg áherslu á (Forseti hringir.) að þó að nefndin fari hratt yfir það geri hún það með fullnægjandi hætti sem ekki hefur tíðkast við fyrri stig (Forseti hringir.) að ég ætla.