144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær spurningar sem hún setur fram. Hún segir ég hafi gefið tóninn af hálfu Samfylkingarinnar um gistináttagjaldið og það má kannski segja það. Ég hef auðvitað alltaf þann fyrirvara við 1. umr. málsins að það eiga eftir að koma fram umsagnir um það og vinna nefnda. Við fyrstu sýn, eins og ég tel mig hafa komið vel á framfæri, sýnist mér vera til betri útfærsla á gistináttagjaldi og að sníða þurfi vankantana af því, ef þeir eru einhverjir. Ég las í frumvarpinu að það séu vankantar á gistináttaskattinum og þá sníðum við þá af.

Ég vitnaði í gögn sem ég hef frá síðu sem heitir túristi.is, sem ég veit ekki hver heldur úti. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Oft er skatturinn lagður á hvern gest og ræðst upphæðin af gæðum hótelsins. Þannig borgar ferðamaður á fjögurra stjörnu hóteli í Róm aukalega um 900 krónur (6 evrur) fyrir hverja nótt.“

Þannig er þetta gert. Ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að gera það svoleiðis. Það er ekkert mál að búa til nokkra flokka, flokka gististaði eftir gæðum, eftir stjörnum, þannig má setja það upp. Fyrir góð hótel á höfuðborgarsvæðinu, bestu hótelin, er borgað meira. Þeir sem kaupa sér gistingu þar hafa væntanlega meira á milli handanna og því er hægt að leggja á.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi er þetta er gert svona úti í hinni stóru Evrópu. Við erum stundum hrædd við hvernig ESA segir að við megum gera hlutina. Ég get ekki ímyndað mér að verið sé að framkvæma þetta í þessum borgum án þess að ESA eða Evrópusambandið fylgist með að gætt sé jafnræðis og að þetta sé leið sem er samþykkt af þeim.

Þess vegna tel ég enn þá að af þeim leiðum sem eru lagðar hér upp sé frekari útfærsla á gistináttagjaldi besta leiðin.