144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Vegna síðustu orða hv. þingmanns, um að ef þetta gjald yrði fyrst og síðast tekið af ferðaþjónustufyrirtækjunum fyrir nýtingu á náttúruauðlindum, mundi það hugsanlega fara út í verðlagið og af því mætti leiða að það væri ferðalangurinn sem greiddi gjaldið. Ég er ekki svo viss um að það þyrfti að vera svo mikið því að það skal enginn segja mér að ferðaþjónustufyrirtæki sem núna selur ferðir á Þingvelli taki ekki eitthvert gjald fyrir að fara einmitt á Þingvelli. Ég held að menn séu nú þegar að verðleggja þetta á einhvern hátt þó að kannski sé ekki alveg hægt að segja nákvæmlega hve mikið það er.

Nú skilst mér að landeigendur geti fengið aðild að þessum náttúrupassa, en mér skilst líka að það sé mjög óvíst hvernig það yrði. Þá þýðir það líka — ég held að það sé réttur skilningur hjá mér — að landeigendur geti, ef þeir vilja ekki vera hluti af náttúrupassanum, sett upp sínar eigin rukkunarstöðvar. Mér skilst að það sé þannig.

Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um hve líklegt er að landeigendur gerist aðilar að þessum passa? Eða eigum við kannski von á því að rukkunarbásar spretti upp vítt og breitt um landið?