144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki nógu vel að mér í nýsjálensku leiðinni til þess að geta fjallað um hana hér. Ég fór þó yfir það í ræðu minni hvaða prinsipp ég mundi vilja hafa að leiðarljósi í þessu efni, að gjaldtakan fari ekki að snúast of mikið um gjaldtökuna sjálfa og peningana og að hún sé áreynslulaus. Ég held að það standi enginn styr um upphæðina. Ef það vantar milljarð til að setja í uppbyggingu ferðamannastaða þá þurfum við ná þúsundkalli af hverjum ferðamanni sem hingað kemur. Færð eru mjög góð og sterk rök fyrir því af vissum aðilum í ferðaþjónustunni að komugjöld séu best til þess fallin, að þetta sé bara í farseðlinum. Þá er sagt: Já, ókei, en þá leggst það líka á innanlandsflug. Þá segi ég: Gott og vel, þá reynum við að styðja við innanlandsflug með öðrum hætti ef þess þarf. Ég held að það sé alveg yfirstíganlegt verkefni að ná með einhverjum hætti þessum þúsundkalli í þágu náttúrunnar af þeim milljón túristum sem hingað koma árlega. Ég skil ekki alveg af hverju búa þarf til alla þessa miklu umgjörð utan um það verkefni.

Ég tek undir það sem mér fannst ég greina í orðum hv. þingmanns, að það er verðugt verkefni að fá fólk til að átta sig á því að við þurfum auðvitað að setja pening í þetta mál og það er skiljanlegt að fólk þurfi að borga aðeins fyrir upplifunina. En ég tel að innheimtan eigi að vera áreynslulausari og að fólk eigi ekki að þurfa að verða jafn mikið vart við hana. Ég held að hún verði aldrei umdeild.