145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[10:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú göngum við til atkvæða um mál sem hefur verið í vinnslu þingsins í sex til sjö ár. Tvær ríkisstjórnir hafa komið að þessu máli, tveir stjórnarmeirihlutar. Það er víðtæk sátt um málið og afar ánægjulegt að þetta stefni í að verða að lögum því að þarna er verið að ákvarða hvernig málefnum um opinber fjármál skuli hagað í framtíðinni. Þetta byggist mjög á áætlunargerð til lengri tíma en við þekkjum nú úr fjárlagagerðinni.

Það er búið að vera ánægjulegt að fá að leiða þetta starf sem formaður fjárlaganefndar. Ég þakka fjárlaganefnd allri fyrir góða vinnu sem og starfsmönnum nefndarinnar og að auki öllum þeim gestum sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd. Málið liggur óbreytt á milli umræðna eins og fyrra mál og meiri hlutinn og minni hlutinn gera ekki breytingartillögur fyrir 3. umr.