145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndarálitinu kemur fram að nú þegar er RÚV að kaupa af þessum aðilum efni fyrir 450 milljónir. Þetta er raunverulega til styrkingar því. RÚV framleiðir ekki allt sitt efni sjálft. Okkur finnst mjög jákvætt að gera þetta svona til styrkingar bæði þeim sem eru í þessum iðnaði hér á landi og líka RÚV. Fjölbreytni efnisins hlýtur þá að vera meira. Það eru afskaplega góðir þættir sem RÚV kaupir af innlendum aðilum og sýnir í sjónvarpi. Það tekur íslenskar bíómyndir til sýningar á jólum og páskum og kaupir þann rétt.

Kvikmyndaiðnaðurinn er um það bil að springa út af fullum krafti á Íslandi og erlendir aðilar hafa komið að því líka vegna endurgreiðslnanna. Fjárlaganefnd setti á sínu fyrsta starfsári 450 milljónir til eflingar Kvikmyndasjóði Íslands. Stjórnvöld eru mjög þenkjandi yfir því að gera vel við þennan bransa. (Forseti hringir.) Þetta er bara framtíðarmúsík, virðulegi þingmaður, sem við setjum fram í nefndarálitinu og ég tek aftur fram að meiri hluti fjárlaganefndar er á engan hátt að skipta sér af dagskrárvaldi RÚV.