145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta heitir að afvegaleiða umræðuna. Rökin sem hv. þingmaður hefur notað fyrir þessu 181 millj. kr. framlagi eru þau að ráðherranefndin hafi átt að taka þetta mál fyrir. Það sem er athugunarvert, og okkur ber þá að fylgja eftir, er að ráðherranefndin sér ekki ástæðu til að koma saman til að fylgja þessu eftir. Ég gef því lítið fyrir þetta.

Varðandi auðlegðarskattinn, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá féll dómur ríkinu í hag. Því er ekki fyrir að fara að hann hafi verið ólöglegur. Og varðandi skattamálin yfirleitt, þá má velta því fyrir sér, þegar við erum að tala um hvort eigi að taka skatta og hvernig eigi að meta þá, að meira að segja í Bandaríkjunum er sjö þrepa tekjuskattskerfi þar sem verið er að taka háa skatta af þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Hér sér hægri stjórnin ekki ástæðu til þess og má því velta fyrir sér hversu langt til hægri hún er eiginlega komin þegar við miðum okkur við þau hægri öfl sem ríkjandi hafa verið til langs tíma í Bandaríkjunum og í Bretlandi þar sem tekinn er hátekjuskattur af fólki.

Ég hef ekki miklar áhyggjur af því, þegar við erum að fjalla um skatttekjur sem fyrrverandi ríkisstjórn setti á, hvort heldur er varðar auðlegðarskatt, veiðigjöld eða þrepaskipt tekjuskattskerfi, vegna þess að það er leið til jöfnunar. Það er margrannsakað að þessi ríkisstjórn, sem ætlar að byggja á brauðmolahagfræðikenningu sinni, er með skattstefnu sína á leið til aukins ójöfnuðar. Og ekki nóg með það, heldur varar Seðlabankinn ítrekað við því að þetta styðji ekki við peningastefnu Seðlabankans og auki verðbólguþrýsting sem við getum ekki sætt okkur við nú þegar örlítið betur árar þrátt fyrir að undirliggjandi rekstur ríkissjóðs sé ekki góður.