145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega tímamót þegar við afgreiðum fjárlög þar sem rekstrartekjur fara yfir 1 þús. milljarða en það skiptir miklu máli hvernig menn fara með það svigrúm sem skapast þegar vel árar. Hér munu þingmönnum enn einu sinni gefast færi á að greiða atkvæði með því að tryggja lífeyrisþegum sambærilegar kjarabætur og láglaunafólk fær, Landspítalanum fullnægjandi framlög í samræmi við óskir yfirstjórnar og framlög til Ríkisútvarpsins sem samrýmast eðli starfseminnar, þörfum hennar og losa hana undan heljarklemmu ritskoðunarvalds ríkisstjórnarflokkanna.

Við munum líka greiða atkvæði um breytingartillögu sem gerir sveitarfélögunum fært að sinna þjónustu við fatlað fólk eins og til var ætlast þegar málaflokkurinn (Forseti hringir.) var fluttur til sveitarfélaganna. Hér munu því að líkindum skiptast á skin og skúrir, en nú reynir á þingmenn stjórnarflokkanna í síðasta sinn á þessu þingi að sýna raunverulegan vilja sinn í þessum réttlætismálum.