145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið, en það segir svolítið um þessa löngu umræðu að minnst hefur verið talað um stóra málið, langstærsta málið. Ég fullyrði (Gripið fram í: Aldraða og öryrkja?) að enginn hefði getað séð fyrir að sá árangur mundi nást sem hæstv. ríkisstjórn er núna að ná þegar kemur að því að komast í gegnum stærstu skaflana í snjóhengjunni og aflétta höftum.

Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sérstaklega til hamingju með glæsilegan árangur. (Gripið fram í.) Þetta er forsendan fyrir því (Gripið fram í.) að við getum orðið skuldlaus þjóð sem við þurfum að vera (Gripið fram í.) því að það er nauðsynlegt fyrir allar þjóðir, sérstaklega litlar þjóðir. Við eigum ekki að gera lítið úr þessum mikla árangri.

Hins vegar er ástandið viðkvæmt þó að við séum sannarlega á réttri leið og ég vonast til þess að í næstu fjárlögum munum við ræða meira forgangsröðun og hagræðingu. Við þurfum að lækka hér gjöld og skatta, styrkja enn frekar grunnstoðirnar því að (Forseti hringir.) það er nokkuð sem við ættum að geta sameinast um, en árangurinn er glæsilegur og við skulum óska hæstv. ríkisstjórn og þjóðinni til hamingju með hann.