146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna í þriðja skiptið að segja það sama og áður og vona að hv. þingmaður hlusti núna. Það sem er í gangi er ákveðið ferli sem ég er búinn að fara yfir tvisvar sinnum. En ég skal alveg gera það í þriðja skiptið, það er alveg sjálfsagt. Þetta snýst ekki um að menn séu að tala út í loftið, eins og ég fór yfir. Menn geta sagt að þetta sé ekki nóg en þetta er alla vega það fyrirkomulag sem alþjóðasamfélagið hefur. Ég sagði það tvisvar. Það má nefna að í næstu lotu í svokallaðri jafningjarýni á vettvangi mannréttindaráðsins, sem hefst í Genf í byrjun maí, munu Filippseyjar koma til skoðunar. Það er ekki aðeins Ísland heldur aðrar þjóðir sem munu fylgja þessum hlutum eftir þar. Við munum svo sannarlega gera það þar og á hverjum öðrum þeim vettvangi sem við teljum mikilvægt hvað varðar Filippseyjar og aðrar þjóðir. Síðan vísaði ég líka í það sem er í samningnum og sömuleiðis sagði ég frá því, og ég kannast ekki við að það hafi verið sérstaklega kurteislega orðað af minni hálfu, þegar ég fordæmdi dráp á Filippseyjum, það er það sem ég gerði á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Hv. þingmaður — eða ég ætla ekki að hafa nein (Gripið fram í.) orð um það, en aðalatriði málsins er að við höfum og munum reyna hvað við getum til að fylgja þeim málum eftir hvað varðar Filippseyjar og aðrar þjóðir þar sem við vitum af mannréttindabrotum. Það er engin stefnubreyting. Það er gott ef hv. þingmenn í þessum sal eru sammála um að það sé það sem við eigum að gera.