146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn.

413. mál
[16:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, grunnlínupunktar og aðlægt belti.

Í frumvarpinu felst tvennt, annars vegar er stofnað til svokallaðs aðlægs beltis í hafinu og hins vegar eru grunnlínupunktarnir sem landhelgi Íslands er mæld frá uppfærðir til samræmis nýrri og nákvæmari mælingar. Aðlægt belti er hafsvæði á grundvelli 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sem liggur frá ytri mörkum landhelgi ríkis og allt að 24 sjómílum frá grunnlínupunktum sem landhelgin er mæld frá. Þar sem Ísland hefur 12 mílna landhelgi er í okkar tilviki um að ræða 12 sjómílna breitt viðbótarbelti í hafinu í framhaldi af landhelginni. Að aðlæga beltinu munu íslensk stjórnvöld samkvæmt frumvarpinu öðlast auknar valdheimildir í nokkrum málaflokkum sem 33. gr. hafréttarsamningsins tilgreinir. Þannig geta íslensk stjórnvöld farið með nauðsynlegt vald, annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum á landi eða innan landhelginnar, og hins vegar til að refsa fyrir brot á framangreindum lögum sem framin eru á landi eða innan landhelginnar.

Frumvarp um upptöku aðlægs beltis og þessara heimilda samkvæmt 33. gr. hafréttarsamningsins var áður flutt á 144. og 145. löggjafarþingi en varð ekki útrætt.

Í frumvarpi sem nú er flutt hér til viðbótar er lagt til að lögfestar verði heimildir samkvæmt 303. gr. hafréttarsamningsins. Þær fela í sér brottnám muna sem eru fornleifafræðilegs og sögulegs eðlis af hafsbotnum innan beltisins án samþykkis viðkomandi strandríkis teljist fela í sér brot á landi eða landhelgi þess á lögum sem tiltekin eru í 33. gr.

Það skal tekið fram að aðlæga beltið fellur innan efnahagslögsögu Íslands, en þau réttindi sem ríki öðlast innan aðlægs beltis eru annars eðlis en þau réttindi sem felast í efnahagslögsögunni.

Hvað grunnlínupunktana varðar þá komu við meðferð fyrri frumvarpa um aðlægt belti fram ábendingar frá Landhelgisgæslu Íslands um að nauðsynlegt væri að uppfæra grunnlínupunkta þá sem landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn eru miðuð við, því að núgildandi punktar sem tilgreindir eru í 1. gr. laganna væru orðnir nokkuð gamlir. Nýrri og nákvæmari mælingar að þeim liggja fyrir og taldi Landhelgisgæslan nauðsynlegt að uppfæra hnit þeirra grunnlína sem fram kom í 1. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Til samræmis við þessar ábendingar eru hnit þessara grunnlínupunkta uppfærð enda mikilvægt að afmörkun landhelgi aðlægs beltis, efnahagslögsögu og landgrunns sé með eins skýrum og nákvæmum hætti og kostur er.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er á sviði sem varðar grundvallarhagsmuni Íslands. Með upptöku aðlægs beltis samkvæmt frumvarpi þessu er verið að virkja valdheimildir sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna veitir strandríkjum og sjálfsagt má telja að Ísland hafi í gildi. Með uppfærslu grunnlínupunktanna er verið að tryggja að þau svæði í hafinu sem Ísland hefur lögsögu yfir séu skýrlega og tryggilega afmörkuð sem er eðlileg skylda hvers sjálfstæðs ríkis, en það er einnig grundvallaratriði í samskiptum okkar við önnur ríki á hafréttarsviðinu. Frumvarpið varðar þannig sameiginlega hagsmuni allra Íslendinga en hefur engan kostnað í för með sér fyrir íslenska ríkið.

Ég vænti þess að samstaða náist hér á Alþingi um þetta mikilvæga mál.