146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram aftur að lögin eru ekki sett fram til að banna rafsígarettur og áfyllingarílát heldur þvert á móti að opna fyrir skilyrði og leyfi á notkun nikótíntengds rafsígarettuvökva. Sömuleiðis er ekki verið að banna eða takmarka notkun fullorðinna umfram það sem á við um tóbak, sem er sem sé hinn gamli máti til að neyta nikótíns, en það er verið að auka takmarkanir gagnvart ungmennum. Hér er ekki eingöngu verið, og það kemur fram í greinargerðinni, að koma í veg fyrir nýgengi nikótínnotkunar, þ.e. að koma í veg fyrir að einhver byrji einhvern tímann mögulega að reykja, heldur er sömuleiðis verið að reyna að koma í veg fyrir að fólk ánetjist nikótíni sem, eins og kemur fram í greinargerðinni, er í sjálfu sér mögulega hættulegt efni og hefur verið sýnt fram á að leiði meðal annars til hjarta- og æðasjúkdóma.