148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni ræðuna. Ég get alla vega sagt að mín tilfinning undir þessari ræðu var sú að hv. þingmaður væri ekki alveg alls kostar sáttur í eigin skinni eða hjarta og ég var hugsi vegna þess að ég veit hug hans til þessara mála, vísitalna og verðtryggingar. Eins og hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu var þetta mál fyrst flutt hér á Alþingi 2016 og þá var hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson einn af flutningsmönnum ásamt hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, Ásmundi Einari Daðasyni og Silju Dögg Gunnarsdóttur.

Svo heyri ég yfirlýsingar hér í ræðu hv. þingmanns að metnaðurinn sé enginn, þetta sé metnaðarlaust mál o.s.frv. Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi þar sem hv. þingmaður var einn af þeim sem töluðu harðast allt kjörtímabilið 2013–2016 um þessi mál og var hvatamaður og mjög umhugað um að fara í það sem kallað er að afnema verðtryggingu.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað hefur breyst í afstöðu hv. þingmanns til þessa máls? Hér ætlum við að fara í faglega vinnu við að meta kosti og galla þess að breyta vísitölugrundvelli mögulega í lánskjarasamningum í samræmi við þau lög sem um það fjalla, sem ég tel (Forseti hringir.) afar mikilvægt. Hvað hefur breyst í afstöðu hv. þingmanns gagnvart þessu máli?