148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil vel að hv. þingmaður reyni að skauta fram hjá því að svara þessu eðlilega með því að tala um afnám verðtryggingar. Þetta mál fjallar ekkert um það. Ég skil ekki svar hv. þingmanns þegar kemur að þessu vegna þess að hv. þingmaður er að leggja fram annað mál sem snýr að vísitölugrundvelli. Um það er málið sem við ræðum hér. Afnám verðtryggingar er önnur og stærri umræða. En hv. þingmaður kýs að svara því. Hv. þingmaður var flutningsmaður á málinu þegar það var lagt fram fyrst algjörlega óbreytt. Nú tek ég það fram að breytingar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur gert á málinu í umfjöllun og hefur afgreitt út í fullu samræmi við allar umsagnir frá Hagsmunasamtökum heimilanna, frá Seðlabanka, frá Hagstofu, eru til bóta fyrir þetta mál, mikilla bóta. Ef við höldum okkur við þetta mál þá vil ég fá svar frá hv. þingmanni: Hvað hefur breyst í afstöðu hans til þessa máls?