149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka mjög fyrir það tækifæri að fá að ræða um borgarlínu og almenningssamgöngur. Ég ætla að ræða eingöngu um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu því að þrátt fyrir að hitt sé mikilvægt þá búa 70–80% allra landsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Þar erum við að ræða það sem kallast á enskri tungu „mass transit“, einhvers konar fjöldaflutninga. Það er það sem skiptir máli þegar kemur að loftslagsmálum.

Alls staðar í vestrænum heimi og þó víðar væri leitað eru borgarsamfélög að efla almenningssamgöngur. Það finnst ekki það borgarsamfélag sem vinnur ekki í þá átt. Ég vil hvetja hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson og aðra þingmenn hér inni til að kynna sér hugmyndina um borgarlínu, því sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að vinna með þetta í fjölda ára og það er algerlega skilgreint hvað á að fara í. Alls staðar í hinum vestræna heimi er það líka þannig að það eru ekki bara sveitarfélögin sem standa undir almenningssamgöngum heldur líka fylki og ríki. Það er fullkomlega eðlilegt að ríkið taki þátt í kostnaði við uppbyggingu borgarlínu.

Og vegna þess að milljarðurinn og tilraunaverkefnið hefur komið hér til umræðu þá er ástæða til að minna á það að milljarðurinn varð aldrei milljarður. Hann er 890 millj. kr. árið 2017. Það eru um 11% af heildartekjum Strætó þannig að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og skattgreiðendur þar standa undir meginkostnaðinum við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Og að sjálfsögðu er eðlilegt að ríkið komi þar inn með markvissum hætti.

Borgarlína snýst um bætt borgarskipulag. Það snýst um meira umferðaröryggi. Það snýst um umhverfismál. Það snýst um tímasparnað og einfaldlega bætt lífsgæði íbúa á þessu svæði.

Þá kemur að því hvernig við ætlum að fjármagna þetta. Nú eru hugmyndir á lofti um vegtolla. Ég styð heils hugar þær hugmyndir, að því gefnu að sjálfsögðu að tryggt verði að vegtollar á höfuðborgarsvæðinu fari í raunverulega uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, bæði (Forseti hringir.) hvað varðar almenningssamgöngur borgarlínu og auðvitað líka hefðbundinna almenningssamgöngukerfa. (Forseti hringir.) — Þetta er allt of stuttur tími, forseti.