150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[15:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nei, ég tel það ekki eðlilegt en við reynum auðvitað að búa kerfið okkar þannig að við séum sátt með það, að við séum að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda og svörum fólki hratt og örugglega og tökum hvert og eitt mál sérstaklega fyrir. Það var ástæða þess að komið var á fót sérstakri kærunefnd, sjálfstæðri kærunefnd, svo að hægt sé að fá fulla endurskoðun á ákvörðun útlendingalaga í heild sem metur alla þætti málsins svo að ráðherra fengi einmitt ekki þessa geðþóttaákvörðun eða einstök mál á sitt borð. Ef umsækjendur eru ekki heldur sáttir við niðurstöðu kærunefndarinnar er hægt að óska eftir endurupptöku mála á grundvelli nýrrar stöðu eða að talið er rangra upplýsinga í máli.

Þarna er kerfi sem við verðum að treysta og getum alltaf bætt og eigum að skoða. Ég hef nú þegar falið þingmannanefndinni að skoða sérstaklega stöðu kerfisins varðandi börn og fólk í viðkvæmri stöðu og það erum við að gera. Reglurnar eiga að vera skýrar og stöðugar og það á að vera gagnsæi í meðferð mála. Við eigum að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa á vernd að halda og við höfum aldrei veitt fleirum vernd en akkúrat í fyrra.