150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningunum.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og átta mig á því að staðan er viðkvæm og erfitt að gefa skýr svör. En það er mjög sérkennilegt að horfa upp á þá stöðu skapast enn eina ferðina að hér var gengið til kjarasamninga fyrir ári með skýrum forsendum þar sem stefnt skyldi að auknum efnahagslegum stöðugleika og það liggur alveg ljóst fyrir í þeirri stöðu sem efnahagslífið er í dag að launahækkanir umfram þá kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir myndu leiða til enn meira atvinnuleysis en ella og stefndi í hættu þeim viðkvæma stöðugleika sem er þó meira að segja erfitt að færa rök fyrir að ríki lengur. En það er alla vega alveg ljóst að við myndum detta í hefðbundið höfrungahlaup ef forsendur lífskjarasamningsins verða brotnar í kjaraviðræðum hins opinbera.

Þess vegna skýtur það mjög skökku við, og það er ástæðan fyrir spurningu minni til hæstv. forsætisráðherra: Hvernig getur það staðist að stéttarfélög sem lögðu upp með kjarasamning fyrir ári, með stöðugleikann að grundvelli, með skýrar kröfur til stjórnvalda um mjög umfangsmikla (Forseti hringir.) aðkomu að þeim kjarasamningum, geti svo með verkfallsaðgerðum reynt að brjóta markmið samningsins á bak aftur (Forseti hringir.) án þess að það hafi áhrif á aðkomu stjórnvalda að þeim sama kjarasamningi? (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég enn og aftur: Er sú staða uppi að forsendur fyrir aðkomu stjórnvalda að (Forseti hringir.) að lífskjarasamningunum gætu brostið vegna þeirrar kjaradeilu sem nú er uppi á opinbera vinnumarkaðnum?

(Forseti (SJS): Forseti minnir á tímamörk.)