151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við tölum oft um menntun óháð efnahag og búsetu sem er jafn mikilvægt í dag og það hefur alltaf verið. Hver og einn á að fá að þroska hæfileika sína með góðu aðgengi að fjölbreyttri menntun óháð aldri, búsetu og efnahag. Við búum í fjölmenningarsamfélagi þar sem brýnt er að skólakerfið haldi þétt utan um börn og ungmenni af erlendum uppruna svo að samfélagið geti notið hæfileika allra sem hér vilja búa. Gjörbreyting hefur orðið í tækifærum fólks í dreifðari byggðum og þess fólks sem er atvinnulaust eða heimavinnandi tímabundið til að sækja sér menntun í fjölbreyttu fjarnámi og má þar nefna Háskólann á Bifröst og HÍ sem nýverið útskrifuðu fjölda nemenda úr fjarnámi. Þessir möguleikar styrkja mjög búsetu um allt land sem hefur líka sýnt sig í auknum áhuga ungs fólks á að flytjast vítt og breitt um landið.

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að menntakerfið sé lagað að þörfum samtímans og gert það með fjölbreyttum aðgerðum undanfarin misseri. Vil ég þar nefna Menntasjóð námsmanna þar sem frítekjumarkið hefur verið fimmfaldað. Ég nefni eflingu starfs- og tæknináms. Ég nefni 3 milljarða í aukningu til háskóla- og rannsóknastarfsemi. Ég vil nefna bætt aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu sem er mjög mikilvæg. Ég vil nefna jöfn tækifæri til tónlistarnáms. Afborganir námslána hafa verið lækkaðar og að lokum má nefna ýmislegt eins og Barnamenningarsjóð sem er nýr sjóður fyrir barna- og ungmennabækur.

Mennt er máttur og allir eiga að fá tækifæri til að nýta hæfileika sína sem best. Það gagnast einstaklingunum sjálfum og samfélaginu öllu.