151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það er þess virði að rífast við frægan fótboltamann um eðli varnarlína. Við vitum alveg að þær bresta. (Gripið fram í.) Þær bresta gjarnan. Það á bara eftir að koma í ljós hvor fullyrðingin sé rétt, að þetta sé sýndarmennska eða ekki. Ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér. Ég hata þegar ég hef rétt fyrir mér um svona atriði vegna þess að yfirleitt þegar ég hef rétt fyrir mér um svona atriði þá erum við að tala um alvarlega hluti í hagkerfinu. Mikið væri ég til í að hafa rangt fyrir mér um þetta. En staðreyndin er sú að það eru kröfur, t.d. í CRD4, sem gera ráð fyrir því að eiginfjármekanismarnir ballanserist út yfir tíma. Það að setja svona þak upp á 15% getur búið til klemmu innan CRD4-regluverksins, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki ágætlega, og það getur orðið til þess að gera ástandið verra í bókhaldslegum skilningi fyrir banka ef það koma skyndilegar þrengingar. Ég veit ekki hvort við þurfum að rífast um þetta. Ef við þurfum ekki að rífast um þetta, ef við skiljum öll hvernig CRD4 virkar í praxís, ættum við ekki að vera að spyrja okkur hvort 15% eða 10% sé rétta talan heldur hvers vegna við erum að búa til þessa auknu áhættu í ofanálag.

En tölum frekar um þetta einfalda. Það er 66 ára góð reynsla í Bandaríkjunum af því að aðskilja þetta fullkomlega. Það er til afskaplega takmörkuð reynsla af því að aðskilja þetta með svona Kínamúr og varnarlínu, eða hvað það skyldi kallast, og það hefur ekki gefist neitt svakalega vel. Ég hlakka til að sjá að þessi tillaga standist vegna þess að það er ekki öruggt.