151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

Fiskistofa.

232. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er ég komin að frumvarpinu sem ég þjófstartaði áðan, sem er frumvarp um að fella niður svokallað sértækt strandveiðigjald sem lendir á engum nema smábátaútgerðinni, frumvarp um breytingu á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992. Ég mæli fyrir því í annað sinn fyrir hönd gervalls þingflokks Flokks fólksins.

Í 1. gr. segir: „2. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.“ Í 2. gr. segir að lögin skuli öðlast gildi strax og þau verða samþykkt í rauninni, ef svo einkennilega skyldi bregða við.

Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi, eins og ég nefndi, en náði ekki fram að ganga, svo undarlegt sem það má virðast. Í greinargerð segir að vorið 2010, einu ári eftir að núgildandi strandveiðikerfi tók gildi, var sett nýtt ákvæði um svokallað strandveiðigjald í lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000. Þar var kveðið á um að við útgáfu leyfis til strandveiða skyldi, auk almennrar greiðslu fyrir veiðileyfi, greiða 50.000 kr. í sérstakt strandveiðigjald á hvert strandveiðileyfi sem gefið væri út af stjórnvöldum. Fiskistofa skyldi innheimta gjaldið. Tekjum af strandveiðigjaldi skyldi svo ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn væri við strandveiðar, yrði landað. Allar götur síðan þetta var innleitt hefur hið svokallaða strandveiðigjald verið óbreytt en með 1. gr. laga um breytingu á lögum um Fiskistofu og ýmsum öðrum lögum, nr. 67/2015, var ákvæðið fært undir 6. gr. laga um Fiskistofu.

Ég hef verið að leggja fram fyrirspurnir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á færibandi má segja. Ég hef fengið mörg og mikilvæg svör, mjög góð svör. Maður hefur getað safnað í sarpinn og teiknað upp betri mynd, heildstæðari mynd, ekki bara í sambandi við strandveiðar heldur mýmargt annað, heildarmynd af því hvernig sjávarútvegurinn okkar almennt er. Þetta er ómetanlegur gagnagrunnur og forréttindi okkar þingmanna að geta sent inn fyrirspurnir og óskað eftir skriflegum svörum ráðherranna. Ég var t.d. með fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 149. löggjafarþingi um einmitt þessi gjöld sem ég er að ræða um hér. Þar var m.a. spurt um upphæðir svokallaðs strandveiðigjalds frá upphafi vertíðar 2010, fyrir 11 árum síðan, til loka vertíðar 2018, þetta er átta ára tímabil, greint eftir vertíðum og höfnum og reiknað í öllum tilvikum til núvirðis. Í svari frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram að þetta gjald hafi yfir allt landið á árabilinu numið samtals um 342 millj. kr., á þessum 11 árum, reiknað til núvirðis í apríl/maí 2019. Miðað við daginn í dag væri það að jafnaði 38 millj. kr. árlega. Gjaldið hefur farið lækkandi því að smábátunum hefur fækkað. Þeim fjölgaði örlítið í fyrrasumar og von mín er sú að þeim haldi áfram að fjölga vegna þess að þetta eru virkilega náttúruvænar veiðar, hollustuvæn veiði, það verður að segjast eins og er. Það getur varla orðið farsælla fyrir lífríkið, ef við ætlum að sækja afla í sjó á annað borð, en að stunda handfæraveiðar. Árið 2019 var 621 bátur að veiðum og strandveiðigjald af þeim bátum nam alls ríflega 30 millj. kr.

Ég ætla kannski ekki að fara út í allar þessar tölur og upplýsingar í svörum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ég vísa bara til þeirra því þau eru orðin mýmörg, eins og ég áður gat um, og mjög áhugaverð og gaman að lesa og skoða og kynna sér. Hins vegar ætla ég að benda á, til þess að gera langa sögu stutta, að þær 50.000 kr. sem strandveiðibátasjómenn eru látnir greiða núna í einhver hafnargjöld eða vigtunargjöld — þetta eru einu aðilarnir sem sækja sjóinn sem þurfa að greiða þetta gjald. Það er algerlega sérsniðið að þeim. Þeim er mismunað algjörlega frá A til Ö vegna þess að þeir greiða öll önnur gjöld. Þeir greiða hafnargjald, þeir greiða gjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Þeir greiða einhverjar krónur fyrir hvert kíló sem þeir veiða á sjó. Þeir borga fyrir alla þá þjónustu sem þeir eru að fá. Það er alveg ótrúlegt að þetta gjald skuli vera búið að hanga þarna inni svona lengi og að ekki skuli vera reynt að koma til móts við þá og hreinlega fella það brott. Það er ekki einu sinni nóg með að þeir fái ekki að ráða því hvenær þeir fara og ná í þau tonn sem þeim er úthlutað á ári heldur er þessi sértæki skattur upp á 50.000 kr. settur á þá, þá einu af öllum. Ég er kannski enginn lögfræðisnillingur en eitt veit ég, það er mælst til þess að vera með vandaða stjórnsýsluhætti og það er líka mælst til þess að við séum ekki að mismuna þegnunum gróflega og augljóslega. Ég veit ekki betur en að við á hinu háa Alþingi séum akkúrat hér til að reyna að koma í veg fyrir að svona augljós mismunun eigi sér stað. Þannig að ég furða mig mjög á því að ekki skuli hafa verið betur verið utan um þetta mál tekið þegar ég mælti fyrir því síðast. Ég vona að það verði betur tekið utan um það akkúrat núna. En hvað um það.

Mig langar að nefna eina fyrirspurn sem ég var með líka, eina af mörgum, þar sem ég velti því fyrir mér hvernig aflanum væri landað og hvort það væri einhver möguleiki á því að réttlæta þessar 50.000 kr. og hvort það væri eitthvað annað sem lægi að baki og þetta væri ekki svona augljós mismunun og annað slíkt. En það er alveg sama hvernig maður skoðar og hvaða forsendur maður gefur sér, það er ekkert sem getur stutt það með neinum rökum að skilyrða þessa aðila sérstaklega, smábátaútgerðina, strandveiðibátana, til að greiða þetta gjald.

Það má geta þess til gamans að í einu svari við fyrirspurn minni kemur fram að 90,4% alls strandveiðiaflans var landað með sölu á fiskmörkuðum hér á landi. Þetta stangast á við fullyrðingar sem hafa heyrst úr ranni andstæðinga strandveiða um að einhverjum verulegum hluta aflans sé landað í gáma til sölu og vinnslu í Bretlandi. Nær allur strandveiðiaflinn fer til vinnslu hér á landi, svo það sé sagt. Hér segir líka að fjöldi landana — það er svo gaman að lesa þetta, virðulegi forseti, ég hvet ykkur bara til að lesa þessi svör. Þau eru greinargóð, þau eru tölulega rétt og þau eru skýr og geta í rauninni stutt við það að maður sé að vinna vinnuna sína af einhverri skynsemi.

Frumvarpið sem ég mælti fyrir á undan, er í rauninni um að gefa strandveiðibátasjómönnum frelsi til að velja sína 12 daga sjálfir til veiða í hverjum mánuði, og þetta frumvarp segir til um að þessir aðilar eigi ekki einir að borga 50.000 kr. fyrir eitthvað sem þeir þurfa ekki að gera og hafa þegar gert t.d. í formi hafnargjalda. Þetta er úrelt, þetta er brot á jafnræði, þetta er hrein og klár mismunun og þetta strandveiðigjald á hreinlega ekki að eiga sér stað. Ég mæli svo sannarlega með því að við á hinu háa Alþingi tökum utan um þetta mál og leiðréttum, því að þetta er ekkert annað en mistök og forsendur fyrir því að halda þessu gjaldi eru, eins og ég sagði, algjörlega engar.