153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Auðvitað á umræða um sveltistefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landhelgisgæslunni erindi undir liðnum fundarstjórn forseta. Ekki eru nema sex vikur liðnar síðan við afgreiddum fjárlög þar sem veiðigjöld hrökkva ekki einu sinni fyrir kostnaði ríkisins af þjónustu við sjávarútveginn. Afleiðingin af því er að það þarf að skera niður í einhverju öðru hjá Landhelgisgæslunni. Það þarf að skera niður í nauðsynlegri þjónustu Landhelgisgæslu Íslands vegna þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur árum saman dekrað við sjávarútveginn með því að leggja of lág veiðigjöld á hann. Það er ein af ástæðunum. Það er ekki bara dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því heldur allur bekkurinn hér fyrir aftan og hver einasti stjórnarliði í salnum.

Það að Landhelgisgæslan sé að fara að selja þessa vél frá sér án umræðu á þingi er þar að auki ótrúleg — valdníðsla er kannski ekki orðið en einhvers konar ráðherrafúsk er það, að halda að hægt sé að koma aftur sex vikum eftir afgreiðslu fjárlaga og bara gjörbreyta grundvelli í rekstri ríkisstofnunar á þennan hátt.