153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Þetta mál er eiginlega með ólíkindum og ekki verður hjá því komist að ræða það undir þessum lið, fundarstjórn forseta. Þetta snýst bæði um aðkomu þings að mikilvægum grundvallarákvörðunum og einnig um efnislega umræðu um málið. Það er í raun og veru verið að svipta þingið réttinum til að gera hvort tveggja. Það dugir auðvitað ekki að benda bara á óundirbúinn fyrirspurnatíma því að þetta er ekki bara mál hæstv. dómsmálaráðherra. Það væri heldur betur áhugavert að heyra hvað aðrir ráðherrar, og eftir atvikum aðrir stjórnarþingmenn, hafa um þetta að segja.

Rökstuðningur hæstv. dómsmálaráðherra fyrir því að gera þetta er sá að vélin sé hvort eð er alltaf suður í höfum. Af hverju er vélin svona oft suður í höfum? Það er vegna þess að stofnunin er fjársvelt. Hvað gera menn þá? Nú, þá selja menn bara vélina. Og hver eru svörin við spurningum um það hvað eigi að taka við? Jú, það eru einhvers konar viðræður í gangi við Isavia um að mögulega geti eitthvað — það eru engin efnisleg svör sem hönd er á festandi, það er engin efnisleg umræða um þetta mál. Það er búið að tiltaka það hér í ræðum hversu mikilvægt þetta er, upp á öryggi landsmanna, upp á öryggishlutverkið allt, upp á leit, (Forseti hringir.) upp á björgun. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkarnir ætli ekki að eiga við okkur einhver orð um þetta.