153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta snýst um dagskrá þingsins, um dagskrá nefnda, um upplýsingar sem við fáum hingað til að geta átt í þeirri lýðræðislegu umræðu sem þarf að eiga sér stað þegar á að taka ákvarðanir eins og þessar. Fyrir jól kom dómsmálaráðherra ásamt Fangelsismálastofnun t.d. til fjárlaganefndar og sagði að það þyrfti 200 milljónir til að skerða ekki þjónustu, sem var algjörlega á horriminni þá. Þá spurðum við í fjárlaganefnd: En hvað þyrfti mikið til að fullfjármagna þjónustuna, sem enginn vill eins og bent hefur verið á? Við spurðum Fangelsismálastofnun um það og fengum minnisblað um það. Hvað haldið þið að það þurfi mikið til þess að fullfjármagna þjónustuna að mati Fangelsismálastofnunar? Svarið var 300 milljónir til að fara að lögum um hvernig á að sinna fangelsismálaþjónustu hérna á Íslandi. Það vantar bara 300 milljónir. Þetta er ótrúlegt, forseti. Ekki fengum við að vita þetta fyrir samþykkt fjárlaga. Ekki fengum við að vita að það ætti að selja flugvél Landhelgisgæslunnar. Þetta er það sem við fáum ekki að ræða hér á þingi og þess vegna erum við hérna í fundarstjórn forseta.