153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:03]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar nú að byrja á því hrósa formanni fjárlaganefndar fyrir að ætla að taka þetta mál til umfjöllunar í nefndinni. Þar á málið auðvitað að vera. En ég hjó eftir því að hún nefndi orðið söluheimild. Ég vænti þess að ráðherrar þurfi í raun og veru söluheimild til að fá að selja ríkiseignir. Það gerist ekki bara þegar þeim dettur í hug og eftir því í hvaða skapi þeir eru. Þá spyr maður: Er ráðherra að fara út fyrir sitt valdsvið eða sínar heimildir þegar hann ákveður upp á sitt einsdæmi að einni af grunnstoðum Landhelgisgæslunnar verði bara hent út og hún seld? Mér finnst þetta vera spurning sem þarf að svara. (Forseti hringir.) Er ráðherra að fara eftir lögum þegar hann vinnur svona og vinnubrögðin eru þessi?