153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[11:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Forseti. Þvert á spár byrjaði árið með því að verðbólga hækkaði upp í tæp 10%. Í fyrsta sinn í 14 ár eykst verðbólga í janúar og við vitum að allir helstu umsagnaraðilar, eins og Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin o.fl., vöruðu eindregið við þessu, að þetta myndi leiða til hækkana sem síðan gerðist, hækkana á matvöru, hækkana á bensíni, áfengi, og þetta er allt saman í boði ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin gaf nefnilega merkið og hún getur ekki litið fram hjá þeirri ábyrgð sinni. Ég heyrði síðan fjármálaráðherra og stjórnarliða segja nú síðustu daga að fólk sé bara að misskilja þetta, misskilja eigið líf, misskilja launaumslagið, misskilja verðhækkanir á matarkörfunni, misskilja greiðsluna á húsnæðislánunum og svo eigi fólk bara að vera þolinmótt og almenningur megi alls ekki fara í að magna upp verðbólgudrauginn með því að eyða of miklu. Það er náttúrlega hjákátlegt að hlusta á þessa afneitun stjórnarliða síðustu daga.

Við fjárlagaumræðuna fyrir jól vöruðu Samtök atvinnulífsins og fleiri umsagnaraðilar, ásamt okkur, mjög harðlega við mjög miklum lausatökum á ríkissjóði, þið munið það; 90 milljarða fjárlagafrumvarp í 120 milljarða. Við vöruðum við ósjálfbærri útþenslu ríkisútgjalda og fjárlagahalla til a.m.k. 2027. Vandamálið er í fyrsta lagi ákvarðanir ríkisstjórnar um allar þessar hækkanir, þær leiða til verðbólgu og ef Seðlabankinn hækkar vexti sína, stýrivexti, í næstu viku er það m.a. annars í boði ríkisstjórnarinnar. En vandamálið er ekki bara þessar ákvarðanir, vandamálið er þensla, og ekki síst þensla ríkissjóðs. Þar liggur meginvandamálið. Ríkið er rekið með massífum halla og ballið var byrjað löngu fyrir Covid. Og núna sjáum við að slakinn í ríkisfjármálum er jafnvel meiri en fyrir Covid. Ríkisstjórnin þenur út ríkissjóð stefnulaust, eiginlega stjórnlaust eins og við heyrum, og lætur í raun Seðlabankann einan um það, og heimilin í landinu, að takast á við verðbólguna.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað (Forseti hringir.) ætlar ráðherra og ríkisstjórn að gera til að vinna gegn verðbólgunni, til að slá á útgjaldaþenslu ríkissjóðs, til þess að vera í liði með seðlabankastjóra en ekki vinna gegn markmiðum hans um að hafa verðbólguna lága?