153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hæstv. ráðherra sjái fyrir sér nauðsyn þess að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins enda virðist hann að stórum hluta vera kominn í eitthvert stjórnleysi. Ég hef aftur á móti áhyggjur af því að það sé losarabragur á því hvernig þessar ákvarðanir verða á endanum teknar og hvernig þættir verði fjármagnaðir.

En til að nýta ferðina þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um það sem nú hefur verið rætt töluvert undanfarið, en það var aðalmeðferð í máli Frigusar gegn Lindarhvoli í síðustu viku í héraðsdómi og reglulega kemur upp umræða um það að hæstv. forseti Alþingis skirrist við að birta skýrslu setts ríkisendurskoðanda um málið, sem hefur núna legið hjá þinginu árum saman. Mig langar í ljósi þess að nú eru þessar upplýsingar svona að leka jafnt og þétt út í kjölfar málflutnings í héraðsdómi að spyrja: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess að skýrsla setts ríkisendurskoðanda þess tíma, Sigurðar Þórðarsonar, sé enn ekki birt?