153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sveigjanleg starfslok.

[11:33]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra skýr og jákvæð svör. Þetta mál er dæmi um það sem ég myndi gjarnan vilja sjá meira af í þinginu, að við getum lagst á árar hvert með öðru í því sem blasir við að þurfi að gera. Ég hef oft heyrt það sagt að þeir sem eru komnir á svokallaðan aldur og eru skyldaðir til að hætta að vinna — þá hefst hið raunverulega öldrunarferli með hraði. Mönnum hrakar við það eitt að vera ekki að fást við áhugaverð, krefjandi verkefni. Ég held að við sjáum það öll að sem betur fer er lífaldur hækkandi, heilbrigðisþjónustan hefur gert það að verkum að fólk deyr síður við þennan aldur en áður var. Mættum við ekki bara líta á það sem sjálfsagðan hlut, í ljósi þessara góðu jákvæðu viðbragða, að við settum saman frumvarp sem allir gætu sammælst um og tækjum til afgreiðslu á þinginu, um að afnema þessa 70 ára reglu sem er úrelt? Ég get komið með þetta tilbúið á mánudaginn.