Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

frammíköll þingmanna.

[11:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Já, það er náttúrulega mikill plagsiður hjá stjórnarliðum að hafa ýmiss konar skoðanir sem þau tjá hér í dyragættum eða í fjölmiðlum en þau koma ekki hingað í pontu til að lýsa skoðunum sínum. Þess vegna má ég til með að nefna hv. formann fjárlaganefndar, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem kom þó í pontu áðan og viðurkenndi að það hefði komið dálítið á sig þegar dómsmálaráðherra tilkynnti að hann ætlaði að beina því til Gæslunnar að selja TF-Sif og er búin að boða fund í fjárlaganefnd um málið. Á meðan svo virðist vera sem fjöldi stjórnarliða hafi komið af fjöllum þegar þetta var tilkynnt, og fjöldi þeirra segist vera ósáttur, þá birtist það ekki hér í sal, það birtist bara í Facebook-statusum og í einhverju nöldri hér úti í sal frekar en í pontu. Ég held, frú forseti, að það væri kannski réttast að við tækjum bara almennilega umræðu um þetta mál, að við settum á dagskrá sérstaka umræðu um björgunargetu Gæslunnar í ljósi þessara nýjustu tíðinda. (Forseti hringir.) Þá geta allir þessir meintu vinir Landhelgisgæslu Íslands komið í pontu og sagt hvort þeir standi með Gæslunni eða hæstv. ráðherra Jóni Gunnarssyni.