Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Íslandsdeild Amnesty International sendir inn ansi viðamikla umsögn. Ég get ekki einu sinni farið yfir punktana úr umsögninni í einni ræðu, ekki einu sinni punktana. Þar er t.d. fjallað um 2. gr. frumvarpsins, þ.e. ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð sem sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð vegna kæru þarf að berast kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar. Þetta segir Íslandsdeild Amnesty International, með leyfi forseta:

„Gagnaöflun vegna kæru er háð afhendingu gagna frá Útlendingastofnun sem gefur sér að lágmarki 10 virka daga til þess að afhenda skjöl.“

Það er talað um 14 daga frá birtingu ákvörðunar, það eru ekki virkir dagar. Tíu virkir dagar eru í raun 14 dagar ef þú tekur helgina fyrir, meira að segja á eftir og á milli þá eru það fleiri dagar, þannig að þetta gengur ekki alveg upp. Sama á við um gagnaöflun frá öðrum stjórnvöldum og aðilum almennt. Inni í öllu þessu ferli, þessum tíma til að skila greinargerð, er kærandi kannski að bíða eftir gögnum frá stjórnvöldum sjálfum sem gefa sér tíma til að svara, jafnvel lengri tíma en fresturinn til að skila greinargerð er.

Áfram segir:

„Sú staðreynd að umsækjendur geta ekki treyst því að gögn verði afhent þeim með stuttum fyrirvara á meðan mál þeirra sæta sjálfkrafa kæru, mun leiða til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd verða ófærir um að undirbúa viðunandi málsvörn og að mál þeirra sé nægjanlega upplýst í skilningi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar ákvörðun er tekin. Tillögð lagabreyting felur í sér áhættu um að þessi málaflokkur verði sá eini sem lýtur málsmeðferð innan stjórnsýslunnar þar sem málsaðilum er ekki tryggður sá kostur að njóta réttar síns til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns í skilningi 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.“

Þetta er ekkert smáræðisatriði, ef fólk áttar sig á aukaafleiðingum þessarar ákvörðunar. Þetta er ekki svo klippt og skorið og auðvelt. Þegar komin er endanleg synjun frá Útlendingastofnun, þegar sjálfkrafa kæra fer í gang, þá eiga þessir 14 dagar til að skila greinargerð bara að vera augljósir af því að viðkomandi á að vera búinn að safna öllum gögnum o.s.frv. Niðurstaða Útlendingastofnunar getur falið í sér alls konar ábendingar um hvað vanti, hvað skorti, að það þurfi jafnvel að afla frekari gagna. Það er stundum ákveðin tregða, má segja, í kerfinu til að sinna í raun og veru réttindum fólks. Fyrir því höfum við dæmi þar sem meira að segja kærunefndin hefur snúið við niðurstöðum Útlendingastofnunar, nokkuð oft meira að segja.

Íhugum þetta bara. Hérna er verið að setja frest til að skila greinargerð og það er sagt: Skal skila innan 14 daga frests. Ef umbjóðandi eða kærandi gerir það ekki þá eru skýrar lagalegar heimildir fyrir kærunefnd til að segja: Heyrðu, þetta kom ekki tímanlega, við bara hentum þessu út. Samt segir kærunefndin líka að hún verði að sinna sinni rannsóknarskyldu o.s.frv., en það þarf þó ekki að segja að henni skuli skila innan 14 daga af því að það gefur bókstaflega möguleika til að segja: Nei, það stendur svona nákvæmlega hérna, við erum bara að fylgja lögunum eins og þau standa. — Þetta býr til vandamál.

Við erum að glíma við nákvæmlega sömu vandamál í málefnum fíkla. Það er þarna heimild fyrir lögregluna til að taka fólk sem er með neysluskammt. Henni er ekki alltaf beitt en ef það hentar til að sinna geðþótta lögreglu þá er henni beitt. Þetta eru svona valdanotkunarmöguleikar sem eru skildir eftir í lögum til þess að löggjafinn, eða lögreglan, geti bara þvermóðskast og sagt: Nei, svona stendur þetta í lögum, við ætlum bara að beita þessu núna (Forseti hringir.) og þurfum ekkert að pæla neitt í því því að það er mjög skýrt. Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá því það er ansi mikið eftir af þessari umsögn.