Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka beiðni sem kom fram hér í gær, og gott ef það var ekki í fyrradag líka, um að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra verði við þessa umræðu til að eiga orðastað við þingmenn um atriði sem snúa að réttindum barna. Hann var spurður út í þau atriði í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag af hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim og vék sér undan því að svara þeirri spurningu sem að honum var beint. Hann benti bara á reglugerð sem honum verður falið að setja varðandi heildarmat á hagsmunum barna í verndarkerfinu, sem er ágætt skref en ekki það sem við höfum áhyggjur af. Það sem við höfum áhyggjur af er annað ákvæði sem snýst beinlínis um það að athafnir eða athafnaleysi forráðamanna geti haft neikvæð áhrif á afgreiðslu umsókna barna. Þar með er ekki verið að taka fyrir umsókn barns sem einstaklings, (Forseti hringir.) það er verið að gera barnið að hluta af hópi sem gengur þvert gegn barnasáttmálanum, eins og kom reyndar fram í máli ráðherrans hér áðan. (Forseti hringir.) Það er ólíðandi að hann svari ekki þessari beinu spurningu og þeim mun nauðsynlegra að hann komi hingað í sal í þessa umræðu.