Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:27]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið og skemmtilega sýn á lögin. Þetta er rosalega mannlega sýn og nákvæmlega það sem við eigum að sýna hér á Alþingi sem löggjafi, að setja mannúð í þessi lög, inn í þennan ramma sem við erum að skikka aðra til að starfa eftir. Hvað varðar það að svipta fólk grunnþjónustu þá náttúrlega gerðist það fyrir tæplega tveimur árum þegar Palestínumönnum var hent út á götuna af Útlendingastofnun. Seinna komst kærunefnd Útlendingastofnunar að þeirri niðurstöðu að þetta hefði bara verið kolólöglegt, hefði ekki samræmst lögum. Tilgangurinn með þessari 6. gr. er nákvæmlega það, að lögfesta það að veita Útlendingastofnun þessa heimild til að svipta fólk þessum réttindum.

Ég málaði smásviðsmynd hér uppi í pontu í gær þegar ég var að tala um þessa 6. gr. Ég segi bara: Segjum sem svo að þessari heimild verði beitt hér á Íslandi og að manneskjan sem verður fyrir þessari valdbeitingu og er svipt þessari þjónustu fari með málið fyrir dómstóla og alla leið upp í Mannréttindadómstól Evrópu. Ég skal veðja að þá myndi koma áfellisdómur á Ísland, af því ég get ekki séð hvernig þetta samræmist mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá og þá sérstaklega 65. gr. um jafnræðisregluna í stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Ég vildi bara spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé líklegt að þetta muni hafa bagalegar afleiðingar í för með sér ef við skoðum ekki nánar hvort þetta samræmist mannréttindasáttmála eða stjórnarskrár