Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég kem frá sveitarfélagi þar sem þessi málaflokkur hefur verið stór. Við vorum sveitarfélaga fyrst til að gera þessa svokölluðu þjónustusamninga sem hafa virkað vel, mjög vel. Þar sem olli okkur erfiðleikum var það sem Útlendingastofnun gerði síðan í framhaldinu, að senda til okkar hópa utan þjónustusamninga. Við töldum að við gætum ráðið við tiltekinn fjölda en við fengum á okkur stærri hópa sem erfitt var að þjónusta. Útlendingastofnun er ekki staðsett í Reykjanesbæ og hún sinnti þessu illa. Þetta er kannski það sem við þurfum að horfa til, að búa til einhverja umgjörð utan um þennan stóra hóp sem er að koma til landsins. Það er bara nauðsynlegt og það er nauðsynlegt að við öll sem samfélag tökum þátt í þessu.

Eftir að ég lagði fram ákveðna hugmynd á kjörtímabilinu 2014–2018 var til okkar ráðinn verkefnastjóri fjölmenningar til þess að við færum í þessa aðlögun, ekki bara þeirra heldur okkar líka, að við myndum læra. Það voru t.d. haldnir pólskir dagar. Við bjuggum til verkefni þar sem við tengdum útlendingana við okkur og ég veit um ungt fólk sem fór í það að þjónusta þessa hópa til að hjálpa þeim til að taka þátt í samfélaginu. Sonur minn var t.d. í slíku verkefni með eldri manni sem fékk síðan vinnu á veitingahúsi, bara aðlagaðist fljótt og vel af því að þannig vill fólk gera þetta. En að við séum að setja fólk út í kuldann, á götuna eins og er talað um, í íslensku veðurfari? Nei, það vil ég ekki.