Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:45]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var áðan að tala um misbeitingu valds og val á leiðum og svo vísa ég líka í fræðibók Páls Hreinssonar og það var frekar ítarlegur rökstuðningur í þeim texta sem ég las upp. En svo ég fari nánar út í þetta: Þegar valdi er misbeitt þá verða náttúrlega réttaráhrif. Þannig virkar þetta. Ég set allt þetta fram hér í tengslum við þetta frumvarp sem við erum að fjalla um til þess að meiri hlutinn, og þá sérstaklega hæstv. dómsmálaráðherra, geti notað þetta sem einhvers konar varnagla fyrir framtíðarágreiningsefni er varða nákvæmlega þetta frumvarp. En réttaráhrif þess að valdi er misbeitt við val á leiðum til úrlausnar máls má í aðalatriðum skipta í tvennt eftir því hvort það hefur leitt til brota á efnis- eða málsmeðferðarreglum. Þegar brot á reglu hefur leitt til þess að úr máli er leyst á grundvelli rangra efnisreglna er ákvörðunin haldin verulegum efnisannmarka og er því almennt ógildanleg.

Segjum sem svo að þetta gerist, segjum sem svo að Útlendingastofnun beiti þessum útlendingalögum, sem við munum kannski lögfesta, við ákvörðun á úrlausn máls hjá einhverjum einstaklingi sem hefur sótt um vernd. Síðan fer þetta fyrir dómstóla og svo er komist að þeirri niðurstöðu að það hefði frekar átt að beita val á leiðum samkvæmt stjórnsýslulögum en ekki samkvæmt þeim sérreglum sem er verið að reyna að setja inn í útlendingalögin. Þá er ákvörðunin bara haldin verulegum efnisannmarka og hún verður ógildanleg. Hvað gerist þá? Eftir að Útlendingastofnun búin að ákveða: Við ætlum að synja þessari manneskju um efnismeðferð, eru þeir þá að fara að segja: Heyrðu, þetta var ógilt. Það var varað við þessu í lögskýringargögnum í 2. umr. Það var verið að tala um þetta frumvarp en við ákváðum að hunsa það. En nú er niðurstaðan sú að þetta er ógildanlegt og málið verður tekið til efnismeðferðar. Þetta er bagaleg niðurstaða og ég vona að það komi ekki til þess, enda er ég hér uppi í pontu að vara við því að þetta frumvarp opnar leiðir fyrir stjórnvöld til að misbeita sínu valdi við val á leiðum til úrlausnar máls. Þetta er bara rosalega rík og mikil heimild sem stjórnvöld hafa. En stjórnvöldum ber fyrst og fremst að fara eftir almennum stjórnsýslulögum og málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga af því að þetta er stjórnvald.

En þegar brot á reglunni leiðir til þess að það hefur ekki verið farið eftir réttum málsmeðferðarreglum þá verður að meta með hefðbundnum hætti hvaða réttaráhrif það hefur samkvæmt hinum óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins um ógildingu stjórnvaldsákvarðana um að umrædd málsmeðferðarregla var sniðgengin og það er bara ferli út af fyrir sig. Það mun líka taka langan tíma. Það mun taka upp pláss í kerfinu, það mun taka tíma hjá fólki og það mun kosta peninga. Því spyr ég, virðulegi forseti: Væri ekki bara sniðugast að halda sig við núgildandi lög? Halda sig við núverandi málsmeðferðarreglur sem eru til staðar í almennum stjórnsýslulögum og Útlendingastofnun er að nota og beita í framkvæmd? Af hverju erum við að koma þessum sérreglum á, sem eru ekki einu sinni nógu vel unnar, að við getum samþykkt þetta með fullvissu um að það muni ekki brjóta gegn neinum öðrum lögum, að þetta muni ekki brjóta gegn almennum reglum, skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins og bara skráðum og óskráðum meginreglum sem stjórnvöld þurfa að fara eftir þegar þau eru að leysa úr máli?

Hæstv. dómsmálaráðherra segir að þetta frumvarp sé lagt fram í því skyni að auka skilvirkni í kerfinu. En í guðanna bænum, forseti. Getur þú sagt mér með fullvissu, eftir að ég er búin að fara í gegnum öll þessi atriði, fjórar, fimm ræður í röð, að þetta sé að fara að auka skilvirkni í kerfinu? Segjum svo að einhverjum einum umsækjanda detti í hug að fara með þetta mál til dómstóla, og þá bara hrynur þetta frumvarp; réttmæti þessa frumvarps og marktækni þess hrynur gjörsamlega. Og hvað gerist þá? Jú, við þurfum að setja á fót ný útlendingalög eða gera breytingu á lögum um útlendingamál sem eru heill lagabálkur út af fyrir sig og það er bara ótrúlega kostnaðarsamt og algjört vesen. Ég væri frekar til í að sjá það ekki gerast.

En, virðulegi forseti, ég er runnin út á tíma. Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.