Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég sé það nú alveg á forseta að hún bíður í ofvæni eftir því að ég haldi áfram að fara yfir stöðu fólks í umborinni dvöl. Hvar vorum við aftur stödd? Jú, með börnin, börnin sem eru ríkisfangslaus vegna þessa limbóástands sem fólk býr í, að hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á Íslandi en getur ekki farið til heimaríkis af einhverjum ástæðum.

Þessi börn fæðast hér, fá ekki ríkisfang hér eða í heimaríkinu. Og eitt af því sem kom svo átakanlega skýrt fram í viðtölum Rauða krossins á Íslandi við einstaklinga í þessari stöðu er þessi — hvað köllum við það? Þetta er eiginlega hreinlega djúpstæð sorg yfir því að geta ekki tryggt börnum sínum einhverja mannsæmandi framtíð, áhyggjur af því að börnin þeirra geti ekki verið í öruggu skjóli. Bara óvissa og þessi tilfinning að hafa litla sem enga stjórn á framtíð sinni.

Eins og ég nefndi hér þegar ég byrjaði að fjalla um þessa skýrslu þá hafa nágrannaríki Íslands, löndin sem við heyrum gjarnan sagt að eigi að miða sig við þegar kemur að útlendingamálum, borið kennsl á þennan hóp. Þau hafa áttað sig á því fyrir nokkru að það þurfi alla vega eitthvert regluverk í kringum þau, á meðan hér á landi er þetta enn þá mjög dulinn hópur. Það er bara Rauði krossinn sem áttaði sig á því fyrir nokkrum árum að þessi hópur væri í rauninni til staðar, fólk sem ekki væri hægt að þvinga til brottvísunar t.d. til Nígeríu eða Íraks og telur sjálft enn vera í hættu, fari það til þeirra ríkja sem það var jú að sækja um alþjóðlega vernd frá.

En það sem Rauði krossinn bendir á eru fjögur ekkert ofboðslega flókin atriði, sem sum hver hefðu jafnvel mátt rata inn í breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, hefði hún verið með augu og eyru og hjarta opin.

Það sem er lagt til er í fyrsta lagi að búa til einhvers konar lagaramma sem viðurkenni tilvist þessa hóps, viðurkenni að það geti verið fólk sem hefur fengið endanlega synjun en er ekki hægt að koma úr landi.

Í öðru lagi síðan að auðvelda aðgengi að dvalarleyfum og í þriðja lagi að auðvelda aðgengi að atvinnuleyfum, vegna þess að á meðan fólk er fast á Íslandi, eins og þessi hópur, þá sækist það eiginlega helst eftir því að geta með einfaldari hætti séð sér farborða með bráðabirgðaatvinnuleyfi. Það myndi líka gera þeim kleift að vera fjárhagslega sjálfbær og sjálfstæð, köllum við það jafnvel, sem bæði bætir lífsgæði einstaklinganna en losar líka kerfið aðeins undan því að þurfa að sjá þessum hópi farborða, því að ef fólk getur bara haft tekjur sjálft til að lifa af þá er það bara það sem þarf.

Síðan í fjórða lagi leggur Rauði krossinn til að sérstaklega sé athugað hver staða barna þessa hóps sé varðandi ríkisfangsleysi.

Af þessum fjórum atriðum þá eru tvö hérna varðandi bráðbirgðaatvinnuleyfi og dvalarleyfi, eitthvað sem hefði svo smellpassað inn í þetta frumvarp vegna þess að hér erum við jú með breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga í frumvarpi dómsmálaráðherra sem eru lagðar til breytingar á varðandi einstaklinga sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið. Hvers vegna í ósköpunum var ekkert hlustað á þetta þegar Rauði krossinn sendi þessa niðurstöðu til allsherjar- og menntamálanefndar 30. nóvember sl. (Forseti hringir.) og ekki einu sinni gerð tilraun til að bæta þessu við dvalarleyfishluta breytingartillagna meiri hlutans? Þetta er ljótt.