Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands og er kominn að 13. gr., sem er takmörkun á fjölskyldusameiningu: „MRSÍ fær ekki séð hvaða lögmæta markmið eða ríka samfélagslega þörf búi að baki tillögu þessari.“

Þetta er rosalega kjarnyrt orðað enda er þessi grein óskiljanleg. Rétturinn til fjölskyldulífs er varinn af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem er í 71. gr. stjórnarskrárinnar út af 8. gr. mannréttindasáttmálans og hann má aðeins takmarka ef uppfyllt eru eftirfarandi skilyrði: Takmörkunin þarf að eiga sér stoð í lögum. Markmið hennar skal vera lögmætt og loks þarf hún að þykja nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þar að auki má takmörkun réttinda ekki ganga lengra en nauðsynlegt er. Það er meðalhófsreglan. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að þessi skilyrði séu ekki uppfyllt, mjög einfaldlega, og ætti að vera augljóst í rauninni fyrir alla sem skoða þetta þegar þar að kemur. En hérna eru sérfræðiaðilar að gefa álit sitt á þessu eins og svo margir aðrir.

Mannréttindaskrifstofa Íslands bendir á, eins og Kvenréttindafélagið, að ekki hafi farið fram jafnréttismat með tilliti til kvenna, hinsegin fólks, fatlaðs fólks, fólks af mismunandi uppruna, litarhætti, kyngervi og kynvitund, enda sé jaðarsettum hópum hættara við ofbeldi. Það er svo merkilegt að lesa þetta aftur og aftur og sjá að við erum enn þá með þetta frumvarp á dagskrá þingsins. Það er eiginlega alveg stórkostlegt, á slæman hátt, ekki á góðan hátt, alls ekki. Maður veltir fyrir sér: Hvað þarf eiginlega til? Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að meiri hlutinn átti sig á því eða sætti sig við að þetta gangi ekki og afleiðingarnar af því að samþykkja þetta verða alger katastrófa? Hvað er það í þeirri hugsun sem segir: Við sættum okkur við það? Eða: Okkur er alveg sama. Eða hvað? Ég get ekki áttað mig á því. Ég skil ekki tilganginn með því. Stjórnarliðar hafa engan áhuga á að koma og svara þeim spurningum. Þegar við ræddum þetta á síðasta fundi nefndarinnar eftir að umsagnaraðilar voru búnir að segja ítrekað að þetta frumvarp væri algjört drasl, það er mín túlkun á því, þá sagðist meiri hlutinn bara ekki ætla að gera neitt, ekki bregðast neitt við þessu, senda málið bara inn í þingsal og hvað? Ræða það þá þar? Nei, það var greinilega ekki ætlunin heldur átti greinilega bara að renna þessu í gegn.

En sem betur fer erum við með Pírata á þingi sem finnst mannréttindi dálítið mikilvæg, dálítið nauðsynlegt fyrir lýðræðissamfélag að búa við. Þannig að við höfum mjög mikinn áhuga á því að útskýra fyrir fólki, bæði hérna innan húss, sem áttar sig greinilega ekki alveg á því hvað er að gerast með þetta þrátt fyrir allar þessar umsagnir, og fyrir fólki sem situr heima í stofu eða les kannski fréttir fjölmiðla af þessu máli, að það gengur bara ekki upp að senda svona frumvarp í gegnum þingið. Það stendur í frumvarpinu að það sé ekki búið að athuga með stjórnarskrárbreytingar þessa frumvarps og þau neita síðan að afla sér frekari álits, eins og álit umsagnaraðilanna sé ekki nóg. Hvernig í ósköpunum geta stjórnarþingmenn réttlætt fyrir sér að fara að sofa á kvöldin? Í alvörunni. Þetta er rosalegt. Ég myndi glaður vilja að t.d. ráðherrar eða þingmenn stjórnarmeirihlutans kæmu hérna og reyndu virkilega, bara á hreinskilinn hátt, að útskýra af hverju við ættum að samþykkja þetta frumvarp. Ég meina, varla erum við að senda það úr nefnd og inn í þingsal til að segja nei við því. Við búumst ekki við því, enda mælir meirihlutaálit nefndarinnar með því að frumvarpið verði samþykkt. (Forseti hringir.)

Ég ætla að fara yfir umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands næst, sem er ansi viðamikil, þannig að ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.