Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að það er meira en löngu orðið tímabært að vísa þessu máli aftur til nefndar til að gera á því mjög mikilvægar breytingar. Eins og við höfum farið ítarlega yfir í ræðum hérna eru fjöldamörg atriði í þessu frumvarpi sem ætla má að brjóti gegn stjórnarskrá og það er bara mjög mikilvægt að því verði breytt. Heyrst hefur í fjölmiðlum að forseti Alþingis telji að það hafi ekkert upp á sig að vísa málinu til nefndar eða fresta þessari umræðu vegna þess að þá fari Píratar allt í einu að gjamma bara um ekki neitt í öllum heimsins mögulegu málum. Ég vil óska eftir svörum frá forseta um hvaðan hann hafi þá hugmynd, því að ekki hefur hann spurt okkur, ekki hefur hann rætt við okkur, ekki nokkurn skapaðan hlut, um hvernig við lítum á þingstörfin fram undan eða hvort við teljum mikla þörf á að ræða málin sem vissulega er brýnt að ræða. Það er ekkert búið að tala við okkur um það. Ég hvet hæstv. forseta til að hleypa öðrum málum að og vinna betur í þessu máli.