Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég játa að það kemur mér ekki bara smá, það kemur mjög á óvart hversu tregur þingmeirihlutinn er hér til þess að fá almennilega skorið úr um það hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá eða ekki. Það hefur verið mín upplifun að almennt taki þingmenn það alvarlega þegar bent er á að eitthvað standist mögulega ekki stjórnarskrá. Ég velti fyrir mér hvað er öðruvísi í þessu máli. Það eina sem mér dettur í hug er það að einstaklingar sem verið er að brjóta á með þessu frumvarpi hafa í raun enga möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér og raunar eru möguleikar þeirra til þess skertir með þessu frumvarpi sömuleiðis. Þannig að ég velti fyrir mér hvort ástæðan fyrir því að meiri hlutanum hér virðist vera sama um þær ábendingar, sem bárust ekkert frá Pírötum, um að frumvarpið stangist mögulega á við stjórnarskrá, að ástæðan fyrir því að þeim sé sama um það sé sú að það (Forseti hringir.) muni ekkert reyna á það vegna þess að þessir einstaklingar sem brjóta á á (Forseti hringir.) hafa ekki aðgang að réttvísinni, hafa ekki aðgang að dómstólum. Er það ástæðan?