Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Lenya Rún Taha Karim nefndi hér á undan mér þá hrópaði það á okkur þegar hæstv. mennta- og barnamálaráðherra svaraði fyrirspurn hér í byrjun þingfundar að ráðherrann svaraði ekki því sem hann var spurður að. Hann var spurður hvort tiltekin ákvæði í frumvarpinu sem bent hefur verið á að stangist á við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna væru ákvæði sem hann gæti stutt sem barnamálaráðherra. Hann svaraði því að það væru hérna einhver allt önnur ákvæði þar sem hann sem barnamálaráðherra fengi einhverja aðkomu að málefnum barna á flótta sem tengist í rauninni bara ekkert því sem spurt var um. Það eru verulega vafasamar heimildir að læðast inn í lögin sem vinna beinlínis gegn réttindum barna á flótta. Við höfum kallað eftir hæstv. ráðherra í þessa umræðu í nokkra daga núna og mig langar að spyrja hvort forseti geti athugað, ef það er enn eitthvað eftir af þessum þingfundi, hvort von sé á ráðherra áður en þessum fundi verður slitið.