Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[04:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp snýst svo sannarlega ekki um það að bæta skilvirkni í málaflokknum nema að mjög litlu leyti og að því leyti sem það snýst um að bæta skilvirkni þá brýtur það gróflega á réttindum flóttafólks, svo gróflega að ég held að fólki detti það ekki einu sinni almennilega í hug.

Ég ætla aðeins að halda áfram að lesa upp úr greinargerð um 7. gr. frumvarpsins. Þetta er sem sagt lýsing frumvarpshöfunda á því hvað þeim gengur til með þessu ákvæði. Þetta er svolítið skemmtilegt og ef ég væri að kenna lögfræði uppi í lagadeild þá myndi ég taka þetta frumvarp og þessa grein til umfjöllunar og sjá hvort fólk gæti leyst þessa ráðgátu, með leyfi forseta:

„Verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar er lagt til að málsmeðferð hennar taki fyrst og fremst mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar en að skoðun hinna nýju gagna og upplýsinga geti þó farið fram með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem fram hafa komið við meðferð fyrri umsókna aðila. Það hefur þau áhrif að ekki þarf að taka allt málið fyrir á nýjan leik heldur einungis það sem leiðir af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem lögð hafa verið fram.

Við meðferð endurtekinnar umsóknar skal málsmeðferð vera eins og um nýtt mál sé að ræða en ekki áframhaldandi meðferð fyrri umsóknar. Þetta hefur þau áhrif að frestir taka mið af þeim degi þegar endurtekin umsókn var lögð fram.“

Það á nefnilega við um þetta ákvæði eins og mörg í þessu frumvarpi að það eru farnar margar leiðir að sama markinu. Til dæmis varðandi þjónustusviptinguna er passað upp á það að þú heitir ekki lengur umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem samkvæmt núgildandi lögum ætti að duga til þess að þjónustan eigi ekki við um þig, og meira að segja kemur fram í frumvarpinu að það þurfi ekkert að árétta það, framkvæmdin hafi bara ekki alveg verið í samræmi við lögin. En samt þarf líka að árétta það í frumvarpinu, í lögunum, að þú missir þjónustu þegar þú ert hættur að vera umsækjandi um alþjóðlega vernd og orðinn útlendingur. Það er verið að setja bæði belti og axlabönd á þær hræðilegu hugmyndir sem koma þarna fram og það á við um þetta líka. Það að kalla beiðni um endurupptöku endurtekna umsókn ætti að duga út af fyrir sig en það er samt verið að passa að það þurfi ekki að skoða málið frá grunni. Það á ekki að gera það en það á samt að líta á þetta sem nýja umsókn til þess að frestirnir gildi ekki, til þess að rjúfa alla fresti. Þetta er svolítið svona að bæði eiga kökuna og borða hana um leið. Það er það sem er í gangi hér sem sýnir kannski hugann þarna að baki, sem er að girða fyrir allar leiðir sem umsækjandi gæti haft til þess að reyna að fá mál sitt endurskoðað.

Það sem liggur að baki þessu ákvæði, eins og að baki þessu frumvarpi öllu raunar, er sú hugmynd að stjórnvöld geti ekki haft rangt fyrir sér í þessum málum, geti ekki haft rangt fyrir sér. Það er komin niðurstaða í málið og hún stendur sama hvað. Það á ekkert að endurskoða hana eitt eða neitt, það er ekki nokkur vafi um það. Það sem er verið að reyna að gera þarna í ofanálag, fyrir utan beltið og axlaböndin og allt það, tvennt af hvoru, er að tryggja það að enn sé hægt að flytja viðkomandi úr landi þó að viðkomandi sé búinn að biðja um endurupptöku vegna nýrra gagna eða vegna breyttra forsendna. Og ef viðkomandi er fluttur úr landi, ef það tekst, þá fellur málið niður. Þá þurfum við ekkert að skoða þessi nýju gögn, þá þurfum við ekkert að pæla í þessu. Það óréttlæti sem er í þessu ákvæði er sláandi og gengur lengra en mér hefði dottið í hug að þau myndu reyna.

Ég ætla aðeins að halda áfram, með leyfi forseta:

„Skýrt er tekið fram að endurtekin umsókn frestar ekki framkvæmd fyrri ákvörðunar en því stjórnvaldi sem er með umsóknina til skoðunar er heimilt að fresta réttaráhrifum enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á nauðsyn þess að fresta framkvæmd.“

Raunar segir í ákvæðinu: „… sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd“, hvað sem það á að þýða í lagatúlkun. Það er ýmislegt sem ég held að muni fara margar flækjur í gegnum kerfið bara við að túlka hvað þessi lög eiginlega þýða og hvað sé átt við þar sem það er talsvert mikið af matskenndum ákvæðum sett þarna inn. Það er ekki verið að skýra eitt eða neitt, það er verið að flækja þetta. Það er bara verið að flækja reglur sem eru mjög skýrar nú þegar. Við erum að tala um eina grundvallarreglu stjórnsýsluréttar sem áratuga framkvæmd er komin á, hefur ekki verið til vandræða að neinu öðru leyti en því að að mati stjórnvalda hafa of margir flóttamenn sloppið í gegnum þessa beiðni. Þar erum við samt að tala um einhverja tugi fólks, ekki hundruð eða þúsund. — Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.