133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hlutfall verknámsnemenda.

331. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir þátttöku í umræðunni.

Þær tölur sem hæstv. ráðherra kom fram með segja okkur það eðli málsins samkvæmt að það hljóti að vera umtalsvert færri eða lægra hlutfall nemenda sem hefur nám á verknámsbrautum á höfuðborgarsvæðinu heldur en fyrir utan Reykjavík því að inni í þeim tölum hljóta að vera allir þeir sem flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og ljúka þar námi.

Í svarinu kristallaðist einnig það óréttlæti sem nemendur á landsbyggðinni standa frammi fyrir, að geta ekki lokið námi í heimabyggð sinni, heldur þurfi að flytja að heiman til að taka jafnvel tvö ár eða meira til að geta klárað námið. Í þessu kristallast jafnframt óréttlætið sem atvinnulífið á landsbyggðinni stendur frammi fyrir, að hafa ekki möguleika á að halda í nemendur sína á þann hátt að þeir nái að ljúka námi og hefji síðan störf í heimabyggð.

Það var gott að heyra hæstv. ráðherra lýsa yfir velvilja sínum gagnvart samstarfi atvinnulífsins og skólans og nefnir sérstaklega 3xStál, eins og ég gerði áðan í máli mínu. En það vekur jafnframt upp þá spurningu um hvað standi í veginum. Mér er það ekki ljóst því ég hélt að það væri líka vilji skólans. Er þá hemillinn fjárhagslegur hjá skólanum sjálfum? Er hemillinn sá að skólinn fái ekki að útskrifa nemendur vegna (Forseti hringir.) þess að þeir þurfa að stunda hluta af náminu úti í atvinnulífinu eða hvað er í veginum, því að þetta er jákvætt mál?