136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:11]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Talsvert hefur verið spurt hér af fyrri ræðumönnum og ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra svari því og ætla þess vegna ekki að endurtaka margt. En ég hef sömu áhyggjur að því er varðar hvernig á að færa skuldir og lántökur inn í lokastöðu ársins og velti talsvert fyrir mér hvort tölurnar sem við skoðum hér — talað er um 234 millj. kr. lántökur og tæplega 98 milljarða kr. afborganir vegna lána upp á 74 milljarða kr. — hvort þetta sé rétt framsetning á málinu. Ég hef um það ákveðnar efasemdir eða skil kannski ekki málið og bið hæstv. fjármálaráðherra að fara þó nokkrum orðum um hvernig skuldir ríkissjóðs verða skráðar í fjáraukalagafrumvarpinu um áramótin eða eins og við munum afgreiða það.

Upplýsingar okkar um lánamál ríkisins segja að þar hafi staðið talan 564 milljarðar kr. 31. október. Ég vænti þess að sú tala komi einhvers staðar fram í lokaskjali fjáraukalagafrumvarps þessa árs, eða misskil ég upplýsingarnar sem við höfum fengið um stöðuna?

Ég velti líka fyrir mér, hæstv. forseti, hvernig verður fært inn í fjáraukann og ég held að ég hafi heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja að verið sé að skoða hvort lán sem tekin hafa verið á árinu, m.a. með yfirdrætti hjá Norðurlöndunum — þetta var lánsheimild sem við veittum í vor upp á 500 milljarða — ættu heima í fjáraukanum eða fjárlögunum.

Síðan spyr ég, af því ég held að enginn hafi spurt að því, hvað með lánið sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi? Hvar verður gert ráð fyrir því? Eigum við ekki veð í einhverjum dönskum banka, hæstv. fjármálaráðherra, út á það? Verður það skráð einhvers staðar í fjárauka þessa árs? Ég hef skilið það svo að það sem við höfum ráðstafað á þessu ári, tekin lán eða lán sem við höfum veitt og þar af leiðandi einhvers staðar tekið út, þyrfti að koma fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2008 en ekki færast yfir á árið 2009.

Mig langar til að fá nánari upplýsingar um það hjá hæstv. fjármálaráðherra í lokaræðu hans um málið hvernig skuldir ríkissjóðs verða færðar í fjáraukanum og í niðurskurði fjárlaga, væntanlega þá inn í ríkiseignir síðar fyrir árið 2008.

Ég heyrði vangaveltur hæstv. ráðherra um að kannski væri ekki alveg ákveðið hvernig með þetta væri farið en ég verð að segja eins og er að mér finnst að skuldbindingar og ráðstafanir sem hafa verið gerðar á árinu hljóti að eiga heima í fjárlögum þessa árs en færist ekki yfir á næsta ár. En það kann að vera einfaldleiki minn og ætla ég ekki að halda því fram að ég kunni tilfærslur í ríkisfjármálum alveg fram og til baka. En ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra geri það og geti svarað einföldum spurningum mínum.

Svo er eitt mál hér sem kemur fram í þessum plöggum. Það er sérstök 700 millj. kr. fjárveiting til Vestmannaeyjakaupstaðar út af nýrri vatnslögn til Vestmannaeyja. Við gerum okkur öll ljóst að bráðnauðsynlegt var að klára það mál en ég held að fjármálahliðin á því sé ekki alveg svo einföld. Ef ég man rétt hafði Vestmannaeyjabær fest fyrirtæki allar veitulagnir sínar, hitaveitu sem vatnsveitu, og þá hefði væntanlega það fyrirtæki þurft að takast á við þann veitukostnað eða lagnakostnað sem fylgir því að reka veitukerfi í Vestmannaeyjum.

Ég geri mér grein fyrir því að ekki er venjulegt mál að koma vatni til kaupstaðarins í Vestmannaeyjum, sem er úti á eyju, og er miklu meiri kostnaður heldur en mörg önnur sveitarfélög geta orðið fyrir eða aðrir þeir sem reka slíkar veitur. En allt að einu þarf svar við því hvernig þessar 700 millj. kr. færast.

Er það þá svo að ríkissjóður eigi 700 millj. inni í þessu veitufyrirtæki eða með hvaða hætti verður þetta fært? Ef ég veit rétt eru tekjur af sölu fersks vatns í Vestmannaeyjum kannski 25–35 millj. kr. á ár. Fær ríkissjóður þá hluta af þeim tekjum til baka til að borga 700 millj. eða hvernig er þetta gert? Eða er búið að stofna sérstakt félag um fjármunina sem kostaði að leggja þessa nýju vatnslögn til Vestmannaeyja? Á ríkissjóður í því félagi eða hvað? (Iðnrh.: Ekki er þingmaður á móti því?) Alls ekki hæstv. iðnaðarráðherra. Hafðu engar áhyggjur af því að ég sé á móti landsbyggðinni. Ég geri mér grein fyrir því að dýrt er að leggja vatn til Vestmannaeyja. Hæstv. ráðherra var ekki í salnum þegar ég sagði það áðan. (Gripið fram í.)

Mér finnst að klárt þurfi að vera hvernig þetta er fært. Því auðvitað er hægt að finna mikil fordæmi í þessu og hvað með hitaveitur sem verið er að leggja á staði úti á landi sem ríkið hefur lagt til o.s.frv. (Gripið fram í.) Já. Ýmislegt má sjá í fjáraukanum. En það er líka ýmislegt sem mér finnst ekki útskýrt nægilega vel og þess vegna spyr ég, hæstv. iðnaðarráðherra. Til þess er nú þessi ræðustóll að geta spurt ráðherrana um það sem við viljum fá upplýsingar um.

Úr því að menn hafa einhverjar efasemdir um að eigi að spyrja svona spurninga þá ætla ég bara að spyrja hér í lokin einfaldrar spurningar, sem ég vænti að menn geti svarað. Það kemur fram undir liðnum umhverfisráðuneytið, sem er ekki alveg ókunnugt hæstv. iðnaðarráðherra. En þar talað um og kannski getur iðnaðarráðherra hæstv. frekar upplýst mig um þetta en hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) Já, allt í lagi, flott. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Að lokum er óskað eftir 8 millj. kr. framlagi til að mæta hluta af kostnaði stofnunarinnar vegna landgöngu tveggja ísbjarna síðastliðið sumar.“

Mig langar að vita hversu mikill þessi kostnaður var, sérstaklega varðandi þyrlugjöldin þar sem menn flugu fram og til baka með einhvern trékassa frá Kaupmannahöfn og ef ég veit rétt passaði kona bóndans barn dýralæknisins — og af því hæstv. fjármálaráðherra er nú dýralæknir geri ég ráð fyrir að hann sé gjörkunnugur því (Gripið fram í.) hvernig staðið er að svona málum.

Ég vænti þess að þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér sitja á bekkjum — og þakka ég þeim fyrir viðveruna — geti skýrt þetta út fyrir mér. (Gripið fram í: Já.) Hvað fór í þessi ísbjarnaævintýri, sérstaklega það síðara þar sem menn flugu jafnvel í þotum norður í land. Ég held að umhverfisráðherra hafi gert það til að komast á vettvang ísbjarnarins.

Rétt fyrir ofan þennan texta, hæstv. forseti, er talað um fjárveitingu annars vegar til gestastofu á Látrabjargi og hins vegar gestastofu á Hornbjargi. (Gripið fram í: Sem á að loka.) Já, Hornstrandagestastofu. Hér er verið að leggja til fjármuni í það og ég held að það sé þokkalegt mál vegna þess að það getur stuðlað að aukningu ferðamanna á svæðið. (Gripið fram í.)

Síðan sá ég í fjárlögunum að þessar upphæðir eru settar á núll við næsta ár. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra sem sitja á bekkjum, annars vegar iðnaðarráðherra, sem er nú nátengdur þessu, og hins vegar fjármálaráðherra. Er þetta stefnan? Eru settir peningar í þetta í fjáraukanum á þessu ári en kippt svo algerlega út á næsta ári? Hvað þá? Er þá framkvæmt?

Af því að ég heyrði á hæstv. iðnaðarráðherra að ég hefði kannski spurt flókinna spurninga um stórar tölur í upphafi þá eru þetta hvort tveggja svo einfalt, um ferðamálin og gestastofurnar og ég tali nú ekki um ísbirnina. Menn hljóta að geta svarað því hér í lokin.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggja fleiri spurningar í bili fyrir hæstv. ráðherra en þakka fyrir fram fyrir góð og skilmerkileg svör.